131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Forvarnir við eldvarnaeftirlit og umhverfisvarnir.

[10:47]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Eins og menn hafa bent hér á er mikil mildi að ekki urðu nein slys á mönnum þegar þessi skelfilegi atburður gerðist. Þetta raskaði að vísu lífi margra og sló marga, sérstaklega eldri borgara, miklum óhug. Ég held hins vegar að við getum þegar upp verður staðið lært töluvert mikið af þessu.

Í fyrsta lagi liggur fyrir að skipulag viðbragða gekk upp. Í öðru lagi komu líka fram brotalamir á því hvernig hið opinbera stendur að leyfisveitingum, bráðabirgðaleyfisveitingum og eftirliti. Ég er þeirrar skoðunar að alltaf verði nauðsynlegt að hafa starfsemi af þessu tagi nálægt höfnum og við þéttbýli. Ég tel að það eigi að vera hægt að búa svo um hnúta að ekki sé hætta á neinum slysum. Þarna brast þó auðvitað eitthvað í skipulaginu og mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherra vildi í stuttu máli greina frá því hvort hún telur að það sé eðlilegt að fyrirtæki sem standa í svona hættulegum rekstri fái að starfa á undanþágu án starfsleyfis.

Ég tek svo líka undir það, herra forseti, sem einn af þeim íbúum sem búa hvað næst olíubirgðastöðinni í Örfirisey að menn þurfa að skoða hana í framhaldinu. Jafnvel á lognkyrrum dögum leika stundum bensíngufur um húsin sem standa næst olíubirgðastöðinni. Maður getur ekki hugsað til enda þá hugsun hvað gerðist ef þar mundi kvikna í í óheppilegri vindátt, ég tala nú ekki um ef einhvers konar annað slys yrði þar. Þetta er eitt af því sem þarf að skoða ákaflega vel og þar er um að ræða starfsemi sem ekki er hafnsækin og ekki þarf að vera inni í miðju íbúahverfi eins og nú er.

Þetta hlýtur að vera eitt af því sem hæstv. ráðherra lætur skoða í framhaldi af þessu. Ég spyr hana hvort svo sé ekki.