131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[21:20]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru svolítið skringilegar stælur sem hér fara fram. Það vakti athygli mína í máli hv. þm. Bjarna Benediktssonar að hann kallaði fjárlög bara áætlun. Ég vil ekki tala svona óvirðulega um fjárlög. Fjárlög eiga að vera eins nálægt því sem okkur dettur í hug að þau geti verið í raunveruleikanum eins og við þekkjum hann á hverjum tíma. Man hv. þingmaður ekki eftir störfum okkar í fjárlaganefnd þar sem við fórum yfir fjárvöntun vegna framhaldsskóla, vegna Atvinnuleysistryggingasjóðs, vegna Landspítala – háskólasjúkrahúss og stjórnarliðar sögðu: Við þurfum ekkert að áætla fyrir þessu í fjárlagafrumvarpi, við skoðum þetta í fjáraukanum og svo sjáum við bara til.

Málið er að fjárlögin eiga að vera eins rétt og mögulegt er þegar þau eru lögð fram og að sjálfsögðu berum við saman ríkisreikning og fjárlög, vegna þess að það segir okkur hversu nákvæm fjárlögin voru sem lögð voru fram. Auðvitað veit ég að ríkisstjórnin (Forseti hringir.) kemur síðan með fjáraukalög og bætir í, en við eigum að bera saman fjárlögin og ríkisreikninginn. (Forseti hringir.)