132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Ástand íslenska þorskstofnsins og veiðihorfur.

[13:53]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Staða þorskstofnsins og ástand hans veldur eðlilega mörgum heilabrotum. Vísindamenn á Hafrannsóknastofnun standa á þeirri skoðun sinni að stærð hrygningarstofnsins ráði úrslitum um nýliðunina og telja sig sjá þetta á því að nýliðun hafi verið marktækt lélegri eftir að hrygningarstofninn dróst saman á 9. áratugnum. Það er í þessu sambandi athyglisvert að það er ekki hægt að sjá samhengi milli nýliðunar í færeyska þorskstofninum og stærðar hans. Sá stofn er nú ekki nema 10% af íslenska þorskstofninum en hann er auðvitað þorskur líka.

Menn hljóta að þurfa að gefa gaum að fleiri þáttum sem gætu ráðið miklu um nýliðun og afkomu íslenska þorskstofnsins. Það er t.d. ástæða til að skoða hvort nýting loðnustofnsins sem náði hámarki sínu einmitt líka á 9. áratugnum geti leikið þarna stórt hlutverk. Var það einhver tilviljun að þorskgöngurnar hrundu í kjölfar loðnugangnanna hvern vetur áður fyrr? Var það einhver tilviljun að mesta hrygningin fór fram við suðvesturhorn landsins þar sem mest hrygndi af loðnunni? Er það þá tilviljun að þar dróst hrygningin líka mest saman? Þetta hefur stofnunin ekki skoðað þó að nýting loðnustofnsins hafi verið undir vísindalegu eftirliti hennar allan tímann.

Það er líka ástæða til að velta fyrir sér að á sömu árunum og við erum hér að tala um breyttu Íslendingar veiðiháttum sínum gríðarlega mikið, fóru að veiða meira, meira með botnlægum veiðarfærum, dregnum veiðarfærum, trolli. Þetta hefur ekki heldur verið rannsakað. Á sínum tíma kom það fram sem afstaða stofnunarinnar að henni væri svo sem alveg sama hvernig þorskurinn væri drepinn, það kæmi þeim ekkert við á Hafró, aðalatriðið væri bara að hann væri drepinn.