132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

327. mál
[15:54]
Hlusta

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég þakka hina miklu umræðu um þetta frumvarp sem er framhald af mjög langri umræðu, ég vil segja tíu ára gamalli umræðu þegar hugmyndir um litun olíu komu upp í efnahags- og viðskiptanefnd fyrir mjög mörgum árum. Þá var ég á móti því og benti einmitt á þá vankanta sem nú hafa komið í ljós, flækjuna og hugsanlega misnotkun. Því er ekki auðvelt að verja þetta kerfi.

Hins vegar féllst ég á þau rök að þáverandi kerfi með þungaskatti og öllu því sem þar blómstraði skekkti samkeppni og nauðsynlegt væri að gera breytingu. Þegar þau lög sem voru til umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd, sem við núna ræðum breytingu á, lagði ég mikla vinnu í að athuga hvort þessir ökukubbar eða ökuritar væru orðnir nægilega þróaðir til að hægt yrði að setja þá inn í dæmið en svo reyndist ekki vera. Það sem vantaði sérstaklega upp á var hvernig haldið er utan um þetta annars staðar, þ.e. hvernig upplýsingum er safnað saman og sérstaklega vantaði vörn gegn því að persónunjósnum væri ekki við komið. Það er kannski það sem enn er ekki leyst, hvernig menn ætla að hindra það að stóri bróðir eða einhver geti fylgst með einstaklingnum hvert sem hann fer á bíl sínum, því að það er nefnilega hægt ef þetta kerfi er notað. Það skráir hvern einasta punkt í hnitakerfinu þar sem menn eru staddir á bílnum.

Ég féllst því á með þeim rökum að þetta skerpti samkeppni að fara út í þessa litun þrátt fyrir að mér væri fullljóst að það yrði ekki til einföldunar eins og hv. þm. Kristján Möller segir, það átti ekki að vera til einföldunar. Það sem menn voru að reyna að ná fram var að koma í veg fyrir skekkingu á samkeppni og alveg sérstaklega, frú forseti, að breyta því að dísilbílar til einkanota væru nánast bannaðir í landinu, en þannig kom það fram. Markmiðið með lögunum var kannski það að gera einstaklingnum kleift að kaupa sér dísilbíla, sem eru sparneytnari, en þegar lögin voru samþykkt var olían líka miklu ódýrari á heimsmarkaði, sem hefur reyndar breyst í millitíðinni.

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson talaði um einföld kerfi og hann á þá væntanlega við að sama gjald yrði á olíu og bensín og ég væri alveg hlynntur því, en þá vakna spurningar með sjávarútveginn. Ætla menn að hafa sama gjald þar líka? Ég væri alveg til í það en ég er hræddur um að heyrast muni þá í einhverjum ef það ætti að vera og þá mætti kalla það mengunarskatt. Við getum bara hugleitt það að hafa sömu krónutöluna, við getum fundið út hver hún á að vera, 39 kr. eða hvað það nú er, bæði á bensín og olíu yfir alla línuna og ekki gera neinar undantekningar eða neitt annað. Þetta kæmi til greina og ég held að það sé rétt að menn byrji strax að hugleiða það. En menn geta ekki verið að breyta kerfum á eins eða tveggja ára fresti, það gengur náttúrlega ekki. Miklar fjárfestingar eru bundnar í því að lita olíu og annað slíkt og miklar fjárfestingar í að koma upp eftirlitskerfi og öðru slíku. Menn geta því ekki leikið sér að því að breyta fram og til baka.

Hv. þm. Kristján Möller benti á marga vankanta í kerfinu og í rauninni var hann að biðja um enn frekari flækju því að hann nefndi dæmi fram og til baka um að þetta og hitt væri að, það væri of dýrt fyrir landsbyggðina og ég veit ekki hvað. Það þýðir að við þurfum að koma með enn fleiri undanþágur og breytingar ef við ætlum að taka tillit til allra þeirra sjónarmiða sem hann nefndi. Síðan bætti hann við að það mætti koma með tilraun, sem væri mjög áhugavert, að nota snjóruðningstæki og þessa ökurita til prufu. En það mundi þýða enn meiri flækju, enn eitt kerfið til viðbótar við öll hin, þannig að ég held að það sé ekki beint gáfulegt.

Hann spurði margra spurninga. Hann talaði um að lækka flutningskostnað út á land. Ef menn ætla að láta borga fyrir notkun á vegum hlýtur að vera dýrara að fara út á land af því að þangað liggja jú vegir, það er það sem menn eru að tala um. Svo hefur auk þess komið fram að þungir flutningabílar slíta vegunum margfalt á við einkabíla þannig að það dugar ekki einu sinni að láta þá borga fast gjald per lítra af olíu, það þarf að bæta við ef menn ætla að hafa það markmið í huga. Þungir bílar þurfa þá að borga hlutfallslega miklu meira en sem nemur olíueyðslunni.

Hann nefndi af hverju þyrfti ekki að koma breytingartillaga um merkingu á bílum. Það var rætt nokkuð í nefndinni en ekki var talin ástæða til að það þyrfti að setja í lög, nóg væri að það kæmi fram í nefndaráliti og í ræðu flutningsmanns á Alþingi að geta um að merkja ætti bifreiðar, það dygði til.

Hann sagði líka að staðið hefði til að einfalda kerfið en eins og ég gat um áðan stóð það aldrei til og það var vitað að þetta yrði flækja. Ég man eftir því í efnahags- og viðskiptanefnd þegar þetta mál var stoppað þar fyrir mörgum árum að ég nefndi það einmitt af reynslu minni erlendis að menn mundu misnota kerfið.

Ég held að menn verði hreinlega að bíða smástund og vona að þessi persónuverndarsjónarmið verði leyst varðandi þessa kubba því að það er kannski besta mælingin til að mæla notkun á vegum eða þá að menn hverfi frá því að hugsa um notkun á vegum og líti hreinlega á þetta sem mengunarskatt eða hreinlega sem skatt og tækju eina ákveðna tölu bæði á bensín og olíu, flata yfir allt. Það kæmi til greina og þá með það í huga að einföldunin mundi spara svo mikla fjármuni að öll hin sjónarmiðin hverfi í ljósi þess.

Það frumvarp sem við ræðum er viðbrögð við göllum sem hafa komið upp í samkeppni, samkeppni bíla og tækja, traktora o.s.frv. þar sem menn nota ólitaða olíu annars vegar og litaða olíu hins vegar, gjaldskylda olíu annars vegar og ekki gjaldskylda olíu hins vegar. Þannig eru menn alltaf að elta réttlætið með sífellt flóknari og flóknari lögum og flækjan er í rauninni líka óréttlát því að þeir sem ekki vita af henni nota hana ekki og einnig gefur þetta líka möguleika á því að svindla, sem er náttúrlega mjög óréttlátt.