133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[16:49]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það getur vel verið að það hafi ekki komið nógu skýrt fram í máli mínu áðan að auðvitað hljótum við að líta svo á að þarna séu mikilvægir áfangar á ferðinni í því að lækka matvöruverð fyrir heimilin í landinu, ef frumvarpið nær fram að ganga. Vissulega skiptir verulegu máli, og það kom fram í ræðu minni, sú lækkun á virðisaukaskatti og vörugjöldum, sem hér er á ferðinni.

En það sem við hljótum hins vegar að benda á í Samfylkingunni og leggja mikið upp úr er að tekið sé á tollamálunum samhliða þessum breytingum. Lykilatriði er að það sé gert samhliða. Ríkisstjórnin boðaði það. Hún sagði að tekið yrði á vörugjöldunum, virðisaukaskattinum og tollunum og menn hafa ekkert séð frá ríkisstjórninni um tollamálin enn þá.

Auðvitað hljótum við að leggja á það áherslu vegna þess að eins og hefur komið fram í skýrslunum um matvælaverðið er það lykilatriðið í því að halda hér uppi háu matvöruverði. Það eru tollarnir.

Virðulegur forseti. Vissulega fagna ég því að ríkisstjórnin hafi áttað sig í þessu máli, þó seint sé, og komi með mál inn á þingið viku fyrir jólaleyfi, tekið inn með afbrigðum, fimm mánuðum fyrir þinglok og efni þar með vonandi það loforð sem gefið var.