133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[17:26]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breyting á lögum og vörugjöld, lögum um virðisaukaskatt og lögum um gjald af áfengi og tóbaki. Hér hafa farið fram gagnlegar umræður um málið. Hér er auðvitað um að ræða tillögur ríkisstjórnarinnar frá því í sumar um hvernig eigi að lækka matarreikning heimilanna í landinu. Það er mjög mikilvægt mál. Hér er um að ræða afrakstur vinnu sem sett var í gang með skipan nefndar þáverandi forsætisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar, um lækkun matarverðs. Eins og frægt er orðið náðist ekki samstaða í nefndinni um niðurstöður en hagstofustjóri, formaður nefndarinnar, skilaði áliti sínu í sumar. Þá tók ríkisstjórnin við málinu og kynnti tillögur sínar þann 9. október. Þær liggja fyrir í frumvarpi þessu.

Ég tek undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni með að auðvitað hefur verið hálfeinkennilegt að fylgjast með því hvernig menn hafa reynt að eigna sér höfundarrétt þessara tillagna. Þessi umræða er ekki ný af nálinni og ósköp eðlilegt að menn eigi líka umræður um það eftir pólitískum línum hvernig menn vilja haga þessum málum. Framsóknarmenn hafa rætt þessi mál heilmikið, lækkun matvælaverðs og lækkun virðisaukaskatts á matvælum á flokksþingum og miðstjórnarfundum og hafa lagt fram ályktanir þess efnis að fara eigi í slíkar lækkanir vegna þess að það sé mikilvægt fyrir heimilin í landinu, ekki síst tekjulægstu hópana og barnmargar fjölskyldur.

Samt held ég því til haga að fyrir síðustu kosningar lögðum við ekki sérstaklega upp með þessar lækkanir í forgrunni í stefnuskrá okkar. Við höfum alltaf verið þeirrar skoðunar að það sé mikilvægt fyrir ríkið að geta staðið undir velferðarkerfinu sem við höfum haft metnað og gæfu til að byggja upp. Þess vegna lögðum við upp með aðrar hugmyndir í skattalækkunum fyrir síðustu kosningar. En vegna hinnar góðu stöðu ríkissjóðs og þess hve vel hefur verið haldið á ríkisfjármálum á undanförnum árum, þeirri staðreynd að okkur hefur tekist að greiða mikið niður af skuldum ríkisins og í staðinn látið vaxtagreiðslur ganga í velferðarkerfið og aðra samneyslu, þá höfum við svigrúm sem við nýtum hér í dag.

Í stuttu máli ganga tillögurnar út á að vörugjöld af innlendum og innfluttum matvælum, öðrum en sykri og sætindum, verði felld niður að fullu 1. mars 2007. Tímasetningin er auðvitað valin í efnahagslegu tilliti þótt menn séu að ýja að öðru í umræðunni. Tímasetningin er valin með tilliti til efnahagsstjórnarinnar því að það er mikilvægt að þetta sé gert á þannig tíma að það komi ríkisrekstrinum vel og ekki síst að það skili sér örugglega til þeirra sem á þurfa að halda, til heimilanna í landinu.

Ég fagna þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að undanskilja vöruflokka þar sem sykur og sætindi eru innifalin út af lýðheilsusjónarmiðum. Það hefur margoft komið fram í umræðunni, m.a. hjá Lýðheilsustöð, að það sé mikilvægt að við lækkum ekki verð á þeim vörum vegna þess að það geti hvatt til aukinnar neyslu á þeim. Ég held að þessi þjóð þurfi, rétt eins og aðrar þjóðir í vestrænum heimi, að berjast við aukinn vanda vegna offitu og ofþyngd. Ég tel því að það hafi verið gott að undanskilja það.

Virðisaukaskattur á matvælum verður síðan lækkaður úr 14% í 7% frá 1. mars 2007 og verður öll vara til manneldis í lægra þrepinu. Ég held að þetta sé góð útfærsla á því. Jafnframt verður virðisaukaskattur af annarri þjónustu og vörum í 14% þrepi, þ.e. bækur, tímarit, blöð, húshitun og hótelgisting lækkuð í 7% og ríkisstjórnin hefur bætt því við, frá því að þetta var lagt fram 9. okt., að geisladiskar muni falla í sama flokk. Það er mikilvægt að tónlist geti keppt við bækur á jafnréttisgrundvelli og út frá samkeppnislegu sjónarmiði fagna ég því. Virðisaukaskattur á öðrum matvælum, sem hefur verið 24,5%, verður lækkaður í 7% frá sama tíma og virðisaukaskattur af veitingaþjónustu lækkaður úr 24,5% í 7% frá sama tíma.

Fulltrúar ferðaþjónustunnar hafa fagnað síðastnefnda atriðinu og tek ég undir með þeim. Ég held að í þessu felist tækifæri til að efla frekar ferðaþjónustu á Íslandi. Ég held að það nýtist ekki síst byggðum okkar um allt land þar sem mikil aukning hefur verið í ferðaþjónustu. Þetta gefur okkur frekar tækifæri til að sækja fram. Ég fagna þessu frumvarpi mjög, eins og ég hef sagt hér. Ég held að ríkisstjórnin sé að stíga mikilvægt skref í átt að því að lækka matarreikninginn í landinu eins og ég held að við séum öll sammála um að það muni nýtast, ekki síst tekjulægri fjölskyldum, tekjulægstu einstaklingunum og barnafjölskyldum.

Ég vil halda því til haga, eins og síðasti ræðumaður gerði í ræðu sinni, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, að auðvitað er um að ræða heilmiklar breytingar fyrir landbúnaðinn. Ég held að það sé mikilvægt að við verðum sammála um að ekki verði vegið að landbúnaðinum þannig að hann geti ekki starfað í því umhverfi sem við búum honum. Menn mega ekki gleyma því að landbúnaður er víða undirstaða byggðar, kannski einmitt þar sem byggðirnar standa hvað veikastar. Framsóknarmenn hafa þess vegna viljað standa vörð um að landbúnaðurinn geti starfað áfram og í þessu samhengi er mikilvægt að slíta ekki í sundur umræðu um matvælaverð annars vegar og almenna umræðu um verðlag eins og fram kom, a.m.k. hjá síðasta ræðumanni.

Íslendingar hafa alltaf haft metnað til þess að reyna að vera að mestu leyti sjálfum sér nógir, að hér sé matarkista sem standi undir þörfum okkar. Við þurfum ekki að rifja upp umræðuna lengra aftur en til síðasta vetrar þegar mikið var rætt um fuglaflensuna svokölluðu. Af því sjá menn hve mikilvægt er að við getum að einhverju leyti verið sjálfum okkur nóg og sjálfstæð.

Bændasamtökin vöktu máls á þessum aðgerðum, með leyfi forseta, ef ég mætti rifja upp frétt á vef þeirra frá 9. október síðastliðnum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Verðstöðvun á mjólk og lækkun tolla á kjötvörum, um allt að 40%, er ávísun á kjaraskerðingu hjá bændum. Mikilvægt er að útfærsla á tillögum ríkisstjórnarinnar á lækkun tolla á kjötvörum verði með þeim hætti að bændum og afurðastöðvum verði gert kleift að takast á við þær. Hins vegar er ljóst að um sársaukafulla aðgerð er að ræða fyrir bændur.

Mjólkuriðnaðinum er mikilvægt að fá svigrúm til að takast á við hagræðingarmarkmið sitt sem er metnaðarfullt. Mikilvægt er að þessar aðgerðir skili sér að fullu til neytenda. Bændur munu samkvæmt þessum tillögum þurfa að leggja verulega mikið af mörkum og það verður verslunin líka að gera.“

Ég tek heils hugar undir þetta. Þarna stigu forsvarsmenn bænda í rauninni fram þegar umræðurnar höfðu staðið um alllangan tíma í ríkisstjórninni og í samfélaginu öllu, um að nauðsynlegt væri að lækka matarreikning heimilanna. Þá höfðu afurðastöðvarnar og bændur frumkvæði að viðræðum við ríkisstjórnina þar sem lögð var til sú leið sem hér liggur fyrir, annars vegar að verðstöðvun muni ríkja á mjólk í tvö ár og hins vegar að menn muni leita leiða við útfærslu á tollalækkunum. Sú vinna er í fullum gangi.

Frú forseti. Menn hafa rætt um þær breytingar sem verða á högum ríkisins hvað þetta varðar á næsta ári. Árið 2007 verður ríkið af tekjum sem nema 8,7 milljörðum. Á heilsársgrundvelli þýðir það 10,5 milljarða. Það verður að halda því til haga að þetta eru tekjur sem ríkið hefur haft og þær hafa staðið undir mörgum brýnum velferðarmálum sem við viljum standa undir og höfum í síauknum mæli fjárfest í, sem betur fer. Eigi ríkið að verða af þessum tekjum þarf einmitt að tryggja að þær rati örugglega í hendur skattborgaranna sjálfra en ekki til milliliða. Á vegum ríkisstjórnarinnar, þ.e. hæstv. viðskiptaráðherra, er í gangi vinna í samvinnu við verðlagseftirlit ASÍ, Neytendastofu og fleiri, til að tryggja að matarverðslækkunin sem hér um ræðir, og vonandi verður samþykkt að lögum fyrir jól, því að þetta tengist auðvitað fjárlagafrumvarpinu, tapist ekki á leiðinni frá haga ofan í maga.

Síðustu ræðumenn fjölluðu einnig um þessi mál. Ég tek undir að það þarf að taka á því. Við getum ekki einungis horft til samkeppnissjónarmiða, sem eru mikilvæg, heldur líka til verðlagseftirlitsins. Ég treysti því að hæstv. viðskiptaráðherra og þingnefndin sem mun taka málið til umfjöllunar, hv. efnahags- og viðskiptanefnd, ræði þau mál.

Við þurfum ekki að ræða um þær breytingar sem áttu að verða á áfengisgjaldinu enda munum við fresta þeirri umræðu. En að sjálfsögðu munum við fara yfir það í þingnefndinni. Ég held að það sé mikilvægt að koma til móts við þau sjónarmið sem fram hafa komið í umræðunni síðustu daga. En það er ljóst að með þessum tillögum var ekki ætlunin að lækka gjald á áfengi, ég held að um það sé full samstaða, a.m.k. er það ekki stefna Framsóknarflokksins að lækka gjald á áfengi enda hefur það að mínu mati neysluhvetjandi áhrif. Við hljótum að leita annarra leiða en lagt var upp með í þessu frumvarpi.

Ég held að þetta frumvarp sé mikilvægt og skipti máli fyrir fjölskyldurnar í landinu, að við lækkum matarreikning heimilanna með þeim tillögum sem hér liggja fyrir. Það er afar brýnt að við tryggjum að lækkanirnar muni sannarlega skila sér í vasa neytenda, þ.e. frá haga ofan í maga en týnist ekki hjá milliliðum á leiðinni. Við megum ekki gleyma þeim fórnum, ef svo má segja, sem landbúnaðurinn færir í þessu sambandi. Hann er tilbúinn að taka þátt í þessu mikilvæga máli með okkur. Þess vegna finnst mér umræða Samfylkingarinnar um þessi mál og landbúnaðarmálin vera óábyrg vegna þess að þar eru menn um leið að gleyma þeirri mikilvægu stétt sem heldur uppi byggð víða um landið. Við eigum að samþætta þessi sjónarmið, sem ég tel okkur gera í þessu frumvarpi. Með því komum við til móts við þær raddir sem hafa hvatt til að lækka matarreikning landsmanna og ég tek undir það. Á sama tíma stöndum við vörð um fjölmörg störf, ekki einungis eru á landsbyggðinni heldur líka á þéttbýlisstöðum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og um landið allt.

Ég vona að okkur takist, herra forseti, að ganga hratt og vel frá málinu í þinginu og að okkur takist að afgreiða þetta mikilvæga mál fyrir jól.