140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

almannatryggingar o.fl.

380. mál
[12:02]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Stærsta einstaka breytingin sem verið er að leggja til í þessu frumvarpi er á lögum um almannatryggingar. Þar segir í 69. gr. að bætur almannatrygginga skuli breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni og að ákvörðun þeirra skuli taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Laun á þriðja ársfjórðungi 2011 eiga að hækka um 7,7% frá þriðja ársfjórðungi 2010. Almenn verðlagsuppfærsla er 5,1% en hér er lagt til að bætur muni hækka um 3,5%. Þetta eru svik við þau loforð sem stjórnvöld gáfu við undirritun kjarasamninga í maí (BJJ: Rétt.) og ég get ekki staðið að því. Því mun ég leggja til seinna í umræðunni breytingartillögu sem ég vona að þingheimur taki undir.