141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:33]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mín almenna skoðun að það sé alltaf til bóta að hlusta á ólík sjónarmið og gagnrýni, ef hún er sett einlæglega fram og ef allir vilja einlæglega reyna að mætast og ná sátt. Þegar ég segi að þetta sé gott skjal og gott frumvarp er það fjarri mér að útiloka að það geti batnað. Ég fór sjálfur yfir ýmislegt sem mig langar að skilja betur og þarf að fara aðeins yfir og ræða. Ég fagnaði því að efnislega umræðan væri hafin í þessum sal. Væntanlega fara þrjár umræður fram og nefndarstarf og umsagnir í því ferli öllu saman. Ég tel að sjálfsögðu mikilvægt að það fari fram og það er sem fyrr von mín að við förum í þá umræðu á þann veg að við ætlum ekki að kollbylta allri þeirri góðu vinnu sem farið hefur fram, heldur reyna einfaldlega að gera frumvarpið enn betra. Það hlýtur að vera gott.