143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

störf þingsins.

[10:33]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég óska eftir því að eiga orðastað við hv. þm. Birgi Ármannsson, formann utanríkismálanefndar, um tengsl Íslands og Evrópusambandsins. Ég tel að það sé full ástæða fyrir okkur að ræða þau samskipti. Ísland er Evrópuþjóð og við eigum mikil samskipti við Evrópusambandið, burt séð frá spurningunni um aðild eða ekki að Evrópusambandinu. Við eigum okkar mestu pólitísku tengsl við Evrópu, við eigum okkar mestu menningarlegu tengsl og okkar viðskiptalegu tengsl við Evrópu. Það skiptir máli hvernig íslensk stjórnvöld halda á samskiptum við Evrópusambandið.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að undanförnu að þau samskipti hafa ekki verið í lagi. Þar hafa gengið á milli yfirlýsingar sem mér finnst ekki vera haldið vel á af okkar hálfu. Síðast í gær fullyrti hæstv. forsætisráðherra að Evrópusambandið hefði í raun og veru slitið aðildarviðræðunum við Ísland með ákvörðun um að hætta að greiða IPA-styrkina. Ég vil segja að samskipti Íslands við önnur ríki eða samtök geta ekki gerst með þessum hætti. Það er ekki hægt að koma hér í ræðustól Alþingis og lýsa því yfir að með því að hætta að greiða IPA-styrkina hafi aðildarviðræðum verið slitið af hálfu Evrópusambandsins. Svona samskipti verða að gerast á formlegan hátt, heiðarlegan og hreinskiptinn hátt. Ef íslensk stjórnvöld vilja ekki eiga í viðræðum við Evrópusambandið verður að tilkynna því það af okkar hálfu.

Ég vil þess vegna spyrja formann utanríkismálanefndar, hv. þingmann, í fyrsta lagi: Hafa íslensk stjórnvöld á einhvern hátt teflt þessum samskiptum í tvísýnu, t.d. með óvarlegum yfirlýsingum á heimavelli? Hafa íslensk stjórnvöld fengið formlegt erindi frá Evrópusambandinu um viðræðuslit? Hefur það gerst? Hver er afstaða hv. formanns utanríkismálanefndar til spurningarinnar um þjóðaratkvæðagreiðslu um næstu skref? Menn deila um hver spurningin ætti að vera. Er ekki rétt að spyrja þjóðina hver spurningin ætti að vera (Forseti hringir.) og hafa þá tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu um það?