144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:18]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Grundvallarveikleikinn í röksemdafærslunni er að þetta sé „skattalækkun þegar á heildina er litið“ því að það liggur alveg ljóst fyrir að veruleg hætta er á því að sum heimili muni ekki upplifa neina skattalækkun. Ég rakti sérstaklega í máli mínu að engin fráviksgreining hefur verið gerð þrátt fyrir að við höfum reynslu af því frá fyrri tíð að lækkanir hafi ekki skilað sér með sama hætti og hækkanir, hvorki vegna gengisþróunar né vegna breytinganna 2007.

Virðulegi forseti. Við þær aðstæður er ekki hægt að koma og flytja hér einhverjar draugasögur um að það sé alveg öruggt að þetta fari með einhverjum ákveðnum hætti því að reynslurökin segja okkur aðra hluti. Mér þykir ríkisstjórnarmeirihlutinn skauta heldur létt fram hjá hættunni af því að nauðsynjar séu hækkaðar í verði, en hlutir sem fólk getur frestað innkaupum á séu lækkaðir. Það hlýtur að vekja öllum ugg. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)