145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mér þykir orðið tilefni til að benda á að þegar lögreglan kallar eftir auknum valdheimildum og fleiri byssum er það ekki mótsögn við sjálfstætt eftirlit með lögreglu. Þegar landamæraeftirlit er hert er það ekki mótsögn við það að koma vel fram við fólk, það er ekki mótsögn við það að auka heimildir til að hleypa fólki inn í landið.

Ég hef miklar áhyggjur af þeirri orðræðu sem ég finn í samfélaginu sem er sú að samkennd og skilningur, almennt að því er virðist, þyki einhvers konar barnaskapur. Áðan var flutt hér ræða sem fyllti mig þessum ótta enn og aftur.

Það er til ágæt heimildarmynd sem heitir The Fog of War og er um mann sem hét Robert McNamara, mjög reyndan mann sem var varnarmálaráðherra Bandaríkjanna í kalda stríðinu. Myndin fjallar um 11 lífslexíur þessa manns. Fyrsta reglan er: Hafðu samkennd með óvininum. Ástæðan er sú að við þurfum að skilja hvernig óvinurinn hugsar. Við þurfum að vita hvar hagsmunir hans liggja, við hvað hann getur lifað og hvað ekki, hvernig hann bregst við hinu og þessu. Það að ætla að svara hryðjuverkaógninni í einhvers konar reiðidrifinni taugaveiklun er hættulegur barnaskapur, virðulegi forseti, sér í lagi ef maður lítur á lexíu sögunnar.

Nú má vel vera að lögreglan þurfi aukin vopn en hún þarf líka sjálfstætt eftirlit. Það má vel vera að það þurfi að herða landamæraeftirlitið en við þurfum líka að skilja rót vandans. Hún er ekki sú að við séum ekki nógu hörð eða nógu sterk eða nógu mikið í stríði. Vandinn er ekki þar, hann liggur annars staðar og það er ábyrgðarhlutverk okkar ef við ætlum að kalla okkur þroskað fólk að skilja vandann sem við erum að reyna að leysa.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna