145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

viðvera utanríkisráðherra við umræðu um ÞSSÍ.

[15:29]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég skil ekki af hverju við getum ekki beðið eftir ráðherranum. Við erum búin að tala um málið nokkrum sinnum áður og ég er búin að fara í tvær ræður, leggja fram spurningar aftur og aftur og það er aldrei neinn sem kemur og svarar þeim. Mér finnst að hæstv. forseti sem okkar forseti, forseti okkar þingmanna, eigi að standa vörð um rétt okkar til að fá svör við spurningum sem eru lagðar fram í fullri einlægni. Þetta eru vond vinnubrögð og ég átta mig ekki alveg á því hvers vegna menn eru að fara þessa leið.

Mikið er rætt um stöðu þingsins út á við. Ég velti fyrir mér hvort það sé svona þing sem hæstv. forseti vilji reka, þ.e. þing þar sem ráðherrar komi með mál, þröngvi þeim í gegnum þingið á methraða. Ég held að forseti ætti að skoða hvers konar málsmeðferð þetta mál fékk. Ég held að það hafi klárast á tveim dögum umfjöllunar eftir að umsagnarfresti lauk. Þetta mál er með öllum slíkum ólíkindum að ég vil óska eftir því að forseti hugsi það vandlega hvort hann geti ekki gert (Forseti hringir.) það fyrir okkar hönd að krefjast þess að ráðherrann sé hérna (Forseti hringir.) og svari spurningum okkar sem við höfum í málinu.