145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hallast að því að ég mundi einnig styðja slíka tillögu en vissulega tekur maður eftir því að stundum þegar hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar taka sig til og ræða málin betur og án þess að vera endilega í einhverjum stríðsgír kemur niðurstaða sem ekki endilega allir eru sáttir við en vissulega næst þó fram sátt hvað varðar aðferðafræði. Gott dæmi um það er náttúruverndarlögin sem við samþykktum nýlega.

Ég velti sér í lagi fyrir mér hvernig hv. þingmaður mundi sjálfur fara með málaflokkinn ef hann væri hæstv. ráðherra, hvort hv. þingmaður hefði haft frumkvæði að þessari breytingu vegna þess að nú vill hæstv. utanríkisráðherra meina, sem er eflaust rétt, að það hafi þótt einhver þörf á því að gera þessa úttekt og reyna að breyta einhverju. Ég hef oft velt fyrir mér hvort það sé nokkur þörf á breytingum yfir höfuð, en menn virðast vilja leggjast í einhverjar breytingar. Þá velti ég fyrir mér hvernig hv. þingmaður sæi fyrir sér að slíkar breytingar yrðu gerðar. Væntanlega yrði kallað eftir áliti manna eins og Þóris Guðmundssonar og fleiri aðila í ljósi þess að þetta er stjórnsýslumál í grunninn en ekki hugmyndafræðilegur ágreiningur um málaflokkinn þróunarsamvinnu, að þetta er ágreiningur um form, stofnanir og fyrirkomulag. Mér finnst í raun og veru svolítið ótrúlegt hvað okkur tekst að deila hérna um mál sem við ættum alveg að geta komist að einhverri sameiginlegri niðurstöðu um vegna þess að hér er enginn hugmyndafræðilegur ágreiningur í sjálfu sér um þróunarsamvinnu, heldur bara hvernig stofnanafyrirkomulagið á að vera.

Ég velti fyrir mér hvernig hv. þingmaður mundi breyta fyrirkomulaginu ef hann teldi þörf á að breyta því yfir höfuð.