145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:36]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, mér finnst þetta líkjast meira fullyrðingum en rökum af því að hv. þingmaður tíndi aldrei til rökin á bak við þær fullyrðingar. Það ætti hv. þingmaður að gera til að hann gæti staðið fastur á sínu í þessu máli. (Gripið fram í.) Þegar maður kemur með einhverjar fullyrðingar þarf maður að benda á rökin fyrir því út af hverju maður heldur fram einhverri fullyrðingu. Þannig er það nú bara.

Þessi málaflokkur verður í ráðuneytinu, hv. þingmaður talar um að það sé betra þegar tveir aðilar sameinist um hlutina. Er hægt að hafa tvo skipstjóra á sama skipi? Ég held að það verði einmitt mikil (Gripið fram í: … öðrum sagt upp.) togstreita. Já, öðrum verður sagt upp. Það er nákvæmlega það sem verið er að gera. (Gripið fram í.) Skipstjóranum á skútunni, Þróunarsamvinnustofnun Íslands, best reknu stofnun á Íslandi með öll meðmæli upp á það, á að segja upp af því að hann hefur staðið sig trúlega of vel og annar á að taka við sem er alveg óljóst hvernig á eftir að reynast, bæði fjárhagslega og faglega.

Mér finnst á málflutningi hv. þingmanns, miðað við fullyrðingar hans þá ættum við að bíða eftir frekari rökum og hvort þetta sé eitthvað sem einhver glóra er í og bíða eftir jafningjaúttekt sem er væntanleg frá DAC-nefndinni og rasa ekki um ráð fram í svona stóru máli af því bara. Af því að þetta er eina mál utanríkisráðherra, af því að menn þurfa bara einhvern veginn að halda andlitinu og keyra einhver mál hérna í gegn. Þessi verklausa ríkisstjórn er auðvitað með allt niður um (Forseti hringir.) sig. Það er kannski líka gott því að þetta er svo ömurleg ríkisstjórn og það sem mundi frá henni koma væri ekki upp á marga fiska.