146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

valfrjáls bókun við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum (OPCAT).

169. mál
[16:25]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Já, það er þannig með þetta blessaða fjármagn að það þarf að forgangsraða því. Það er takmarkað. Það kemur í ljós eins og í öllum ráðuneytum að mönnum er þröngt sniðinn stakkurinn. Þegar kemur að forgangsröðun hljóta menn að líta líka til þess hversu brýn verkefnin eru. Þetta verkefni er vissulega brýnt en við megum samt ekki gleyma því að við búum við alveg ágætisfyrirkomulag á Íslandi. Ég vona að það hvarfli ekki að nokkrum manni að hér séu stundaðar einhvers konar pyndingar. (Gripið fram í.) Það er vissulega rétt að margir eru frelsissviptir, heilabilaðir, aldraðir og aðrir til lengri eða skemmri tíma. Þá ber líka að hafa í huga að þeim er öllum skipaður talsmaður þannig að við erum með ýmis úrræði til að fylgjast með og reyna að stemma stigu við því að gengið sé á réttindi þeirra sem vistaðir eru tímabundið eða til lengri dvalar þar sem frelsi þeirra er skert.

Að þessu sögðu tek ég alveg undir málflutning málshefjanda og þess hv. þingmanns sem tekið hefur þátt í umræðunni. Þessu þarf að halda til haga og koma því fyrir í sýnilegra formi en blasir við mönnum dagsdaglega. Ég vil hins vegar árétta að það er margt annað sem styður við réttindi einstaklinganna sem þarna um ræðir. Það er kannski ekki allt fengið með því að setja á laggirnar stofnun (Gripið fram í.) eða markvisst eftirlit. Þetta eftirlit fer fram á svo mörgum (Forseti hringir.) vígstöðvum. (Gripið fram í.)