146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

biðlistar eftir greiningu.

157. mál
[16:53]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa góðu fyrirspurn. Ég tek undir að mér finnst mjög mikilvægt að styrkja skólana sjálfa í að hafa möguleika á faglegri greiningu sem fyrst á skólastigum. Ég er að hugsa um eins og lesblindu sem hefur háð mjög mörgum á skólagöngunni, oftar en ekki drengjum, og hefur kannski orðið til þess að viðkomandi hefur ekki haft getu, burði og hreinlega kjark til að halda áfram námi vegna þess að hann hefur glímt við lesblindu og hún hefur greinst kannski allt of seint. Ég held að það skipti svo miklu máli að greina lesblindu eina og sér sem fyrst á skólagöngunni og þá geti það verið til stuðnings að hægt sé að greina það í viðkomandi skólum með faglegri aðstoð og að skólarnir séu styrktir til þess fjárhagslega.