150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[15:29]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að segja að ég mun sitja hjá við atkvæðagreiðslu þessa máls vegna tengsla við einstakling sem málið varðar. Ef ekki væri fyrir þau tengsl hefði ég sennilega stutt málið, leiði ég líkum að, en ég verð reyndar að segja að umræðan fær mig til að efast mjög reglulega um afstöðu mína til þessa máls vegna þess að það er margt sem hefur áhrif á afstöðu mína í því. Í fyrsta lagi er málið sjálft fáránlegt. Það held ég að allir hljóti að vera sammála um, þótt það sé kannski ekki orðað nákvæmlega þannig af öllum. En það er algerlega fáránlegt að Alþingi sé að taka ákvörðun um miskabætur eða bætur fyrir eitthvað sem tilheyrir dómskerfinu að taka ákvörðun um.

Aftur á móti verð ég líka að segja það að þessi mál, Geirfinns- og Guðmundarmálin, hafa svipt þann sem hér stendur trúnni á dómskerfið og yfirvöld. Þetta þykir ekki fínt að segja hvar sem er og hvenær sem er. Það er ákveðin tilætlunarsemi í samfélaginu um að maður eigi bara að treysta dómstólum, maður eigi að trúa því að stjórnvöld ráði við hin og þessi verkefni. Það er bara ekki tilfellið í mínu tilfelli, virðulegi forseti, ég get ekki beðist afsökunar á því eða mildað það neitt vegna þess að það er bara eins og það er. Ég hef ekki þessa trú. Það hvernig yfirvöld og dómstólar hafa brugðist í þessu máli áratugum saman hefur svipt mig þeirri trú. Nú vil ég ekki móðga neinn, en mér finnst það jaðra við að vera barnalegt að halda rígfast í einhverja svakalega trú á dómskerfið eða Hæstarétt eða yfirvöld eftir að íslenskt samfélag hefur þurft að horfa upp á mál eins og Geirfinns- og Guðmundarmálin og allt sem þeim fylgir.

Ég tek eftir í málflutningi sumra sem segja að þetta eigi heima hjá dómskerfinu, sem er alveg skiljanlegt, það er alveg rétt, auðvitað á þetta heima hjá dómskerfinu, svo ofboðslegri trú á það að allt í einu núna geti dómskerfið farið að gera eitthvað rétt. Jú, það hefur skánað, það er gott, en ég skynja þessa bjargföstu trú á það að ef hlutirnir eigi heima þar þá hljóti að fara vel að lokum. Ég bara trúi því ekki, virðulegi forseti. Ég trúi því ekki af sömu ástæðu og ég trúi ekki á ýmislegt annað sem öðrum finnst sjálfsagt að maður trúi á. Víða í samfélaginu er tilætlunarsemi um að maður eigi bara að trúa hinu og þessu og veldur manni vandræðum í mannlegu samfélagi þegar maður trúir því einfaldlega ekki.

Vel á minnst. Hér áðan var minnst á trúverðugleika ríkislögmanns. Ríkislögmaður er eins og nafn embættisins felur í sér lögmaður ríkisins og skjólstæðingur þess lögmanns er ríkið sjálft. Ríkið sjálft getur ákveðið hvernig það vill staðsetja sig í skaðabótamálum og getur breytt afstöðu sinni eins og hver annar, gerir það með bókun eins og kom fram á fundi nefndarinnar. Ég hef ekki enn heyrt neina útskýringu á því, hvorki slæmar né góðar, hvers vegna í ósköpunum þetta frumvarp ætti að þurfa til þess að ríkislögmaður myndi skipta um skoðun á því að krefjast sýknu. Sú pæling að honum beri skylda til þess að gera ýtrustu kröfur finnst mér bara ekki standast neina skoðun. Þetta er bara lögmaður ríkisins og ríkið getur lagt fram þá kröfu sem ríkið telur rétta, í þessu tilfelli nánar tiltekið hæstv. forsætisráðherra, vænti ég. Ég held að það snúist ekki um það hvað ríkislögmaður geti gert í sambandi við kröfur sínar heldur hvað hann vilji. Ég held að þetta snúist í raun um það að það þætti líta svo illa út, væri eitthvað svo kjánalegt og asnalegt eftir að ríkislögmaður hefur lagt fram þessa greinargerð, þar sem hann krefst sýknu í bótakröfu, að svo komi hæstv. forsætisráðherra og segi: Nei, skamm, ríkislögmaður. Við ætlum að gera þetta öðruvísi og hann fari að gera þetta öðruvísi. Ég held bara að það liti illa út, eins og skakkt bindi eða rifa á jakkanum, liti þannig út.

Virðulegi forseti. Mér er bara slétt sama hvort það lítur vel út eða ekki. Ríkislögmaður má líta aðeins illa út mín vegna. Hann er ekki lögmaðurinn minn. Ég er ekki yfirmaður ríkislögmanns, það er ekki mitt að treysta honum. Það er ekki mitt að segja til um það hvort hann gerir hlutina rétt eða ekki. Það er hæstv. forsætisráðherra sem kýs að fara ekki þá leið að segja einfaldlega ríkislögmanni: Nei, við ætlum að gera þetta öðruvísi. Við ætlum að leggja fram bókun þar sem við förum ekki eftir ýtrustu kröfum ríkisins sem hugsast getur í þessu máli heldur tökum afstöðu í samræmi við lágmarksskynsemi. En ég skil að það líti illa út og allt í góðu, hæstv. forsætisráðherra verður að eiga það við sig. Sum sé, skilaboðin eru þau að til að ríkislögmaður skipti um skoðun þarf eitthvert svona frumvarp, eftir því sem ég best fæ séð af einhverjum svona ástæðum, einhverjum útlitsástæðum. Þá stöndum við frammi fyrir þeirri ákvörðun að samþykkja þetta frumvarp til að tryggja að heimild verði til staðar til að borga þessar miskabætur, jafnvel þó ríkislögmaður haldi kröfu sinni til streitu — ég ætti reyndar að segja hæstv. forsætisráðherra gegnum ríkislögmann. Jafnvel þó dómstólar tækju þá fáránlegu afstöðu að engar bætur skuli veita vaknar líka spurningin: Treystir maður dómstólum til að taka svo fáránlega afstöðu?

Virðulegur forseti. Svar mitt er því miður já. Ég treysti dómstólum mætavel til að taka fullkomlega fráleitar ákvarðanir þegar kemur að dómsmálum almennt. Ég veit ekki hvernig það gerðist að í okkar samfélagi ætti maður að bera ofboðslega miklu virðingu fyrir ógurlegri visku Hæstaréttar. Ég bara hafna þeirri kenningu, virðulegi forseti. Ég hafna ýmsu sem ég heyri í trúarbrögðum. Mönnum ber ekki skylda til að trúa og treysta. Ég trúi ekki. Ég treysti ekki. Mér þykir ekki fyrir því, ég biðst ekki afsökunar. Ef fólk er hneykslað yfir því þá verður það bara að eiga það við sjálft sig því að mér er sama.

Þetta mál fyrir mér snýst ekki bara um fórnarlömbin, hvorki fórnarlömbin Geirfinn eða Guðmund né aðstandendur þeirra né fórnarlömb kerfisins sem síðan komu í kjölfarið, heldur Ísland. Það að Ísland sem samfélag hafi leyft því að gerast sem gerðist og horft upp á það. Ég skil það að ákveðnu leyti, Ísland er ungt samfélag, frekar barnalegt að mörgu leyti og hefur verið lengi, seint að skríða út úr hellunum, ef svo mætti að orði komast. Maður skilur þetta alveg en það réttlætir ekki neitt. Það réttlætir ekki meðferðina á þessu fólki og það er bara sjálfsagt að greiða fyrir það miskabætur. Þegar kerfið hefur brugðist áratugum saman veit ég ekki hvernig það á að vera eitthvað óþægilegra að líta verr út að samþykkja frumvarp eins og þetta, eins galið og það þó er að vera komin í þá stöðu til að byrja með. Mér finnst þetta erfitt mál vegna þess að ég er sammála því að auðvitað ætti þetta heima í dómskerfinu en sagan gefur mér ekki þá trú og það traust á dómskerfið eða getu/vilja ríkisstjórnarinnar eða ríkislögmanns til að taka réttar ákvarðanir í þessu. Sagan sýnir ekki fram á það að íslensk yfirvöld eða dómstólar taki rökrétta afstöðu í þessum málum. Það er ekki þannig.

Ég velti fyrir mér hvernig atkvæði mitt myndi enda, alla vega í þessu máli, ef ekki væru persónuleg tengsl sem munu gera að verkum að ég verð á gula takkanum og mun sitja hjá við afgreiðslu málsins. Ég vil segja það eins og er að eftir málflutning hér í pontu og í nefnd hef ég svolítið flakkað á milli rauða takkans og græna takkans, ég hef verið á græna takkanum meiri hluta tímans en það hefur líka hvarflað að mér að greiða atkvæði gegn þessu máli á þeim prinsippforsendum að það eigi heima hjá dómstólum.

Þá er það fordæmið, annað atriði sem ég skil mjög vel, ber mikla virðingu fyrir reyndar. Við ættum að geta spurt okkur að því og svarað þeirri spurningu: Hvernig er með fordæmið ef við samþykkjum þetta mál og svo fáum við fleiri? Ja, virðulegi forseti, ég veit það ekki. Guðmundar- og Geirfinnsmálin voru ekki bara háð fyrir dómstólum, þau voru háð í fjölmiðlum, eru hluti af okkar réttarsögu á hátt sem ekkert annað mál er eða verður nokkurn tíma. Það verður alltaf einstakt, alveg sama hvað, fyrir þær sakir einar að hafa verið jafn mikið til opinberrar umfjöllunar og átt jafn fyrirferðarmikinn stað í opinberri umræðu og raun bar vitni, þar á meðal hér á þingi á sínum tíma. Þetta mál verður alltaf sérstakt að því leyti. Aftur á móti finnst mér það ákveðið grundvallaratriði að fólk fái bætt það sem það hefur misst vegna þess að ríkið hefur brotið á því. Og ef það kemur ekki í ljós fyrr en seinna að fólk hafi orðið fyrir villimennsku af hálfu ríkisvaldsins, í meintu umboði þjóðarinnar í þokkabót, þá verð ég að segja eins og er að mér finnst að það eigi að bæta þann miska. Ef það er dýrt þá er það bara dýrt. Á það ekki að vera dýrt þegar ríkið kemur svona fram við fólk? Á það ekki að vera svolítið vont? Á það ekki að vera svolítið sárt fyrir ríkið? Mér finnst það, að það eigi að vera vont og eigi að vera sárt.

Þá kem ég að lokum að því sem aðrir hv. þingmenn hafa nefnt, sem er að ljúka þessu máli. Fyrir mitt leyti er þessu máli aldrei lokið. Þessu máli verður aldrei lokið. Fyrir mér er það varanlegt einkenni á íslensku samfélagi. Sagan núna er sú að þetta getur gerst og íslenskt samfélag í réttum aðstæðum mun bregðast við eins og það hefur brugðist við áratugum saman, þ.e. bregst meira eða minna ekki við. Það er lexían sem segir eitthvað djúpstætt um það hver við erum og hvað við getum umborið. Það fer aldrei neitt því málinu verður aldrei lokið þannig að efinn og vantrúin eru varanleg fyrir mitt leyti. Ég mun aldrei treysta þessu kerfi. Ég mun aldrei treysta dómstólum. Ég mun aldrei treysta Alþingi, mun aldrei treysta ríkisstjórninni, og mun aldrei treysta kjósendum heldur fyrir því að fara rétt með svona mál. Ég mun alltaf vilja að það sé gert meira til að tryggja réttindi fólks. Ég mun aldrei fara ofan af því að við þurfum eftirlit með eftirlitinu, við þurfum aðhald og mótvægi. Við þurfum lýðræðislega öryggisventla. Við þurfum bætur þegar illa fer.

Nú er ég heppinn að tvennu leyti, að ég þekki einstakling sem er tengdur málinu og get þá einfaldlega setið hjá í þessu máli vegna þess að ég er enn þá pínulítið óviss um það hvar atkvæði mitt myndi lenda á endanum. Ég sé að það eru fleiri á mælendaskrá sem ég tel alveg við hæfi og langar reyndar að taka undir þá hugmynd ef þingsköp leyfa að þetta mál fái meiri og ítarlegri umfjöllun í nefnd. Það er reyndar komið til 3. umr., ég veit ekki hvernig það virkar gagnvart þingsköpum, ég er ekki með þau fyrir framan mig. En mér þætti góður bragur á því í það minnsta.

Ég verð alla vega að segja að ég kann að meta hug hæstv. forsætisráðherra að leggja þetta fram og þó að ég greiði ekki atkvæði eins og fólk mun gera þá eru góðar ástæður til að greiða atkvæði á hvaða hátt sem er um þetta mál. Ég skil fullkomlega að sumir greiða atkvæði gegn því. Ég ber fulla virðingu fyrir þeim ástæðum sem fólk mun hafa fyrir því að gera það. Ég ber líka fulla virðingu fyrir því að fólk sitji hjá eða greiði atkvæði með þessu og skil alveg sjónarmiðin sem liggja að baki þar. En þetta mál ætti að minna okkur enn og aftur á hvað gerðist og leyfa því aldrei nokkurn tímann að verða einhvern veginn lokið. Því verður aldrei lokið, virðulegi forseti, þessu máli mun aldrei ljúka, því mun aldrei linna.