150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[15:49]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sé ekki í frumvarpinu að þar sé ákveðið hverjar bæturnar skuli vera upp á krónu. Það er minnst á eitthvert dæmi í greinargerð en líka tiltekið sérstaklega- nú finn ég þetta ekki í fljótu bragði- að það gæti breyst. En fyrir utan það vil ég líka nefna að við hér á þinginu höfum ákveðna tilhneigingu til þess að ofmeta lögskýringargögn eins og greinargerðir og ræður og höldum oft að við getum ákveðið rosalega margt með lögskýringargögnum sem síðan reynir aldrei á vegna þess að ákvæðin eru skýr. Ég fæ ekki betur séð en að ákvæðin í þessu máli séu mjög skýr og það verði ekki ákvörðun Alþingis hverjar upphæðirnar verði. Þannig er minn skilningur á málinu.

Hitt er síðan að ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni að skoða málið betur hvað þetta varðar og sér í lagi að tryggja samræmi við stjórnarskrá. Ég tók undir það í ræðu minni og sagði að ef þingsköp leyfðu það ætti að henda málinu aftur inn í nefnd til að skoða það sérstaklega eða enn þá betur. Ég styð það.