150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[16:01]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú myndi ég vilja fletta upp í ræðu minni til að vita nákvæmlega hvaða orð ég notaði, ég man ekki til þess að hafa sagt að dómskerfið væri ómögulegt og ég man ekki heldur til þess að hafa sagt að ég hefði algjöra vantrú á því en hins vegar nokkra vantrú, sér í lagi gagnvart þessu máli. Mér finnst þetta mál hafa sýnt fram á það hversu máttlaust það getur verið, ég ítreka að það er ekki bara dómskerfið. Ég gagnrýndi íslenskt samfélag í heild sinni, þar á meðal kjósendur fyrir að hafa látið þessa vitleysu viðgangast áratugum saman. Þar liggja vonbrigði mín fyrst og fremst, virðulegur forseti. Ég held að dómskerfið muni aldrei endurspegla eitthvað miklu betra en það þegar allt kemur til alls. Þess vegna þarf stundum að segja hlutina eins og þeir birtast manni. Ég verð að segja við hv. þingmann að honum getur þótt slæmt að ég segi þessa hluti. Mér finnst það líka slæmt en mér finnst ég samt þurfa að segja þá. Mér finnst þetta ömurlegt mál og mér finnst ömurlegt að þurfa að segja þessa hluti í kjölfarið á að hafa horft upp á þetta bull. Þannig er samt staðan.

Ég veit ekki alveg hvernig ég get huggað hv. þingmann betur, en ég verð að frábiðja mér einhverjar lexíur um þrískiptingu valdsins og að dómstólar ráði. Þetta er samþykkt, þetta veit ég og útskýrði í báðum andsvörunum sem ég veitti áðan. Það ætti að vera alveg skýrt. Ef hv. þingmaður vill fá það út úr mér að ég trúi ekki á þrískiptingu valdsins, aðhald eða mótvægi verður hv. þingmaður, með fullri virðingu, að eiga það samtal við einhvern annan en mig. Ég trúi nefnilega á þrískiptingu valdsins og hef reyndar barist fyrir henni heldur harðar en hv. þingmaður og hv. flokkur hans ef út í það er farið. Þetta snýst ekkert um það, þetta snýst ekki um að niðurstöður dómstóla ráði. Auðvitað gera þær það. Þess vegna finnst mér það vandamál þegar dómstólar komast að fáránlegri niðurstöðu. (Gripið fram í.) Það er vegna þess að niðurstaðan þarf að gilda. Það er undirstaða friðar í landinu, og í öllum samfélögum ef út í það er farið, að það sé einhver sameiginlegur úrskurðaraðili. Það er trú mín á það sem gerir það að verkum að mér finnst þetta vandamál.

Ég heyri voða lítið annað frá hv. þingmanni en hneykslan yfir því að ég tjái hug minn og heiminn eins og hann birtist mér. Ég verð bara með fullri virðingu, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) að leiðbeina hv. þingmanni um að hann ræði þá sorg sína við einhvern annan en mig. Ég skapaði ekki þennan heim og ég reisti ekki þetta dómskerfi.