150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[16:05]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst það endurspegla nákvæmlega vandamálið hversu sjálfsagt hv. þingmanni finnst að ýtrustu kröfur séu gerðar í máli eins og þessu í ljósi forsögu þess. Mér finnst það lýsa hugsunarhættinum sem fær svona kerfi til að klikka, til að virka ekki eins og þau ættu að virka.

Hv. þingmaður spyr hvort mér þyki eðlilegt að þingmenn segi svona hluti í pontu. Mér finnst leitt að þurfa að segja svona frá hlutunum. Ég hef þá tvo kosti að vera heiðarlegur eða ekki. Ég kýs að vera heiðarlegur með það.

Virðulegur forseti. Ég vil ekki vera dónalegur en það er ágætt að hafa það á hreinu að mér er alveg sama hvað hv. 5. þm. Reykv. s. finnst um það hvað ég segi í pontu og hvað ekki. Mér finnst það ekki vera hans að meta það. Hann heldur sínar ræður og ég held mínar ræður, stundum hneykslar hann mig og stundum hneyksla ég hann. Þannig er það bara og hv. þingmaður verður að gjöra svo vel að lifa með því. Ég segi bara hlutina eins og þeir birtast mér og ef þeir eru ekki nógu fallegir og ef það er óheppilegt verður það að vera svo, (Forseti hringir.) virðulegi forseti. Það er allt sagt með fullri virðingu, ég er bara að segja hlutina eins og þeir eru. Sorrí með mig.