150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

framlagning stjórnarmála.

[16:32]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Bara vinsamleg ábending: Það er þingfundardagur á morgun og síðan fara í hönd tveir mikilvægir nefndafundardagar á fimmtudag og föstudag. Við þurfum að fá skýrari línur núna af hálfu ríkisstjórnarinnar. En alla vega er það þannig að við erum að sjá og lesa um það í fréttum að það hafi verið vandræði meðal ríkisstjórnarflokkanna hvað það varðar að fá fram ákveðin mál. Við erum að sjá þau dembast núna inn í þingið. Við erum að sjá fjölmiðlafrumvarpið og við erum að sjá fleiri frumvörp af hálfu ríkisstjórnarinnar og okkur hefur bókstaflega vantað mál allt þetta haust hingað inn í þingið. Og hverjir eru það sem hafa haldið uppi starfsemi hér í þinginu? Það er stjórnarandstaðan, með því að leggja fram mál. Nú er svo í pottinn búið að við erum að fara inn í nefndadagana. Þá er verið að reyna að koma í veg fyrir það af hálfu meiri hluta að afgreiða mál úr nefndum sem koma frá þingmönnum stjórnarandstöðunnar. (Forseti hringir.) Ég vil beina vinsamlegum tilmælum til forseta þingsins að taka það upp innan forsætisnefndar að við förum að sjá aðeins á spilin af hálfu ríkisstjórnarinnar og fá botn í það hvernig við ætlum að klára þingið í næstu viku.

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir á tímamörk.)