150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

framlagning stjórnarmála.

[16:35]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Alveg eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson sagði áðan er þetta ábending í mesta bróðerni til meiri hlutans hér á þingi. Það gengur ekki að við séum að fara að afgreiða stór og mikil mál í einhverjum spreng á síðustu dögum rétt fyrir jól. En ég vil draga það fram að það er ekki þannig að stjórnarandstaðan, a.m.k. ekki Viðreisn, standi í vegi fyrir eðlilegum dagsetningarmálum sem ríkisstjórnin er búin að vinna vel og við erum búin að vinna vel í þinginu. Það er ekki ætlunin. En ekki koma með mál sem eru ekki fullbúin, ekki koma með mál sem varða víðtæka hagsmuni sem skiptir máli fyrir þingið að geta farið vel yfir með gestum og farið yfir umsagnir. Þetta er bara vinsamleg ábending af minni hálfu, að við fáum strax samtal, annaðhvort innan forsætisnefndar eða við ríkisstjórnarflokkana og formennina þannig að við förum yfir þessi mál núna og áttum okkur á því hvernig við getum lokið þinginu í næstu viku með sóma.