150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

breyting á ýmsum lögum um skatta.

432. mál
[17:18]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Í seinna andsvari langar mig að víkja að tölunum í fjölda skráðra ökutækja sem munu njóta ívilnana, þ.e. þessara 15.000 ökutækja, til 2023. Mig langar aðeins að heyra sjónarmið hæstv. ráðherra um það hvort ráðherrann telji ástæðu til að endurskoða þennan fjölda þegar á líður og eins þá að endurskoða ákvæði laganna ef næst að fylla í þennan kvóta mjög hratt. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á er þarna aðeins um að ræða 5% af heildarbílaflota landsmanna og tæplega hægt að halda því fram að fullum orkuskiptum verði náð við það mark en tekjufall ríkisins er ekki orðið það mikið að ekki sé ástæða til að halda áfram með ívilnanir með einhverjum hætti.