150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

breyting á ýmsum lögum um skatta.

432. mál
[18:02]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Að mínu viti er margt merkilegt og skemmtilegt um að hugsa í þessum málum, eins og með strætisvagna. Ég var að rifja upp þegar maður stóð í þessu á sveitarstjórnarstiginu og við vorum að skoða málin varðandi strætisvagna. Einn strætisvagn er á við um 50 bíla þannig að þegar við erum að metanvæða strætisvagna og stór tæki er það gríðarlega stórt og mikið loftslagsmál, að nýta á þann hátt metanið. Auðvitað er æskilegt að það sé brennt fremur en að því sé sleppt út í andrúmsloftið við vinnslu en þarna eru klárlega töluverðir möguleikar. Síðan eigum við möguleika svo sem í mykju á stórum kúabúum. Helstu klasar sem gætu verið í metanvinnslu á Íslandi eru tengdir kúamykju eða svínaskít. Á Suðurlandi og í Eyjafirði eru töluverðir möguleikar. Maður vill vera með þéttleika, stór bú, helst í svona 10 km radíus. Ég hef aðeins lesið greinar eða mastersritgerðir sem snúa að því og þarna eru töluverðir möguleikar. Það er spurning hvort nefndin geti fundið einhverja frekari hvata við að skoða hvort það séu möguleikar til að nýta þetta enn frekar. Það sem vinnur gegn þessu á Íslandi er væntanlega að raforkan okkar er það hagstæð og svo mikið af henni. Við getum rafvætt samgöngur í landinu með tiltölulega hagstæðum hætti í gegnum rafmagnið. En ég held að það sé rétt að við gleymum ekki að nýta alla þá kosti sem geta tengst metaninu í loftslagsmálum tengt samgöngum.