150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

breyting á ýmsum lögum um skatta.

432. mál
[18:06]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Það er rétt að hrósa því sem vel er gert í þessu máli. Eins og ég nefndi í andsvörum við hæstv. ráðherra áðan er ánægjulegt að sjá reiðhjól hér undir, að heimilt sé að undanþiggja þau virðisaukaskatti með ákveðnum fjárhæðartakmörkunum þó. Það er fín viðbót við það ívilnunarkerfi sem við erum þegar með varðandi orkuskipti í samgöngum. Það er alveg ljóst að ef við ætlum að ná þeim markmiðum í orkuskiptum sem við höfum sett okkur — og þykir ýmsum að þau markmið séu ekki einu sinni nægilega metnaðarfull — þarf talsvert meira að koma til. Eins og ég nefndi við hæstv. ráðherra í andsvari finnst mér ráðuneytið alltaf hálfgerður kleyfhugi í þessu. Um leið og gerðar eru tillögur um ívilnanir af því tagi sem við ræðum hér virðist undirliggjandi meiri ótti við að þær virki en að þær virki ekki. Þar af leiðandi er alltaf reynt að girða fyrir það með einhverjum fjöldatakmörkunum að þetta fari úr böndunum kostnaðarlega séð fyrir ríkissjóð þrátt fyrir að hið augljósa sé að bæði eru orkuskiptin sem slík gríðarlega þjóðhagslega hagkvæm fyrir okkur, því að við erum jú í flestum tilfellum að skipta úr innfluttum orkugjöfum yfir í innlenda orkugjafa, í tilfelli rafmagns a.m.k. og metans og vetnis svo sem líka, og síðast en ekki síst erum við með miklar skuldbindingar í loftslagsmálum um hvernig við ætlum að draga úr losun og við vitum að það kemur til með að kosta ríkissjóð umtalsverða fjármuni að kaupa nauðsynlegar losunarheimildir ef við náum ekki þeim markmiðum. Þar af leiðandi má kosta ansi miklu til til að við náum viðunandi árangri og ég myndi vilja sjá meiri metnað í þeim efnum.

Mig langaði að nefna nokkur atriði til hugleiðingar í því samhengi. Ég sé enga ástæðu til að vera með fjöldatakmarkanir á ívilnunum, að við stígum það skref. Það er alveg ljóst að ívilnanirnar, sérstaklega hvað varðar brottfall virðisauka af innfluttum bifreiðum, eru tímabundnar og fyrst og fremst til að mæta því að enn er um að ræða umtalsvert dýrari bifreiðar en almennt gengur og gerist þegar kemur að bifreiðum knúnum jarðefnaeldsneyti. Það er enn staðreynd og meðan svo er er engin ástæða til að takmarka þessar ívilnanir við tíma eða fjölda. Þegar við erum farin að sjá raunverulegan og mikinn árangur af orkuskiptum í samgöngum væri hægt að taka sjálfstætt upp umræðu um það hvort rétt væri að fella ívilnanir sem þessar niður.

Það er líka alveg ljóst, þegar kemur að umræðu um að 5% hlutfall sé nægjanlegt fyrir nauðsynlega innviðauppbyggingu, að okkur miðar ansi hægt í innviðauppbyggingu enn, og ég held að engin ástæða sé til að grípa til takmarkana sem þessara enn sem komið er. Það er sjálfstæð umræða, eins og hæstv. ráðherra kom inn á í ræðu sinni, hvernig við endurskilgreinum gjaldtökukerfið af umferð og raunar löngu tímabært í tengslum við alla umræðu sem verið hefur í vetur um veggjöld eða ekki veggjöld að ljúka þeirri umræðu í eitt skipti fyrir öll. Það er alveg ljóst að eðli máls samkvæmt eiga umhverfisvænar bifreiðar einnig að standa straum af kostnaði við viðhald og endurnýjun vegakerfisins.

Hið opinbera sjálft er annað atriði sem ég velti fyrir mér, að ríkið marki sér metnaðarfulla stefnu í orkuskiptum, í fjárfestingum í umhverfisvænum samgöngukostum. Það væri t.d. ánægjulegt ef við sæjum ráðherrana meira og minna aka um á rafmagnsbifreiðum í staðinn fyrir tengiltvinnbifreiðum eins og er í dag. Það hefur með réttmætum hætti verið gagnrýnt að tengiltvinnbifreiðar af þeirri stærðargráðu eru dálítil sýndarmennska í þágu umhverfisins í það minnsta. Þetta eru bifreiðar sem fara mjög stuttar vegalengdir á rafhleðslunni en aka fyrst og fremst um á jarðefnaeldsneyti. Ríkið ætti bara að vinda sér í að skipta út ráðherraflotanum eða ráðherrabílaflotanum — mér væri það reyndar ekki á móti skapi að ráðherrunum yrði skipt út líka en það bíður seinni tíma. Flotanum mætti skipta út í rafmagnsráðherra eða rafmagnsráðherrabíla og hafa þá bara við hendina bifreiðar sem geta ekið lengri vegalengdir ef ráðherrar þurfa að skjótast út á land og það er hægt að deila þeim eins og við þekkjum svo vel úr deilihagkerfinu milli ráðherra, þeir þurfa ekki allir að hafa sinn eigin bíl. Einnig ætti ríkið að ganga á undan með góðu fordæmi og setja ráðuneytum og opinberum stofnunum skýr markmið um orkuskipti í eigin bílaflota. Þau markmið ættu að vera mjög metnaðarfull þannig að við færum í tiltölulega hraðar aðgerðir og gætum á fáeinum árum skipt út þorra bílaflota í eigu ríkisins yfir í umhverfisvænni kosti.

Hæstv. ráðherra kom inn á það í ræðu sinni varðandi almenningssamgöngur og bifreiðar að um gríðarlegar fjárfestingar væri að ræða fyrir viðkomandi fyrirtæki. Við sjáum að það gerist mjög hægt að við sjáum fram á raunveruleg orkuskipti. Strætó rekur um 160 hópflutningabifreiðar í almenningssamgöngum og ég held að innan við 30 teljist umhverfisvænir rafbílar eða metanbílar, að meðtöldum tíu bifreiðum sem áætlað er að taka inn á næsta ári. Það gefur augaleið að það mun taka allnokkur ár að skipta flotanum út með þessu áframhaldi og þess vegna velti ég því fyrir mér hvort við ættum jafnvel að ganga enn lengra. Í staðinn fyrir að binda ívilnunina eingöngu við niðurfellingu virðisauka í innflutningi bifreiða væri hægt að taka upp einhvers konar úreldingarkerfi eins og við höfum stundum gripið til þegar við viljum hraða breytingum sem þessum, þ.e. að við greiðum hreinlega styrk til úreldingar á eldri og umhverfisvænni vögnum í því samhengi. Það mætti reyndar alveg velta því fyrir sér líka, í ljósi þess að verulega hefur hægt á sölu nýrra bifreiða á undanförnum misserum, sem auðvitað hægir á þessu orkuskiptaferli okkar öllu, hvort ekki væri rétt að taka upp eitthvert slíkt fyrirkomulag gagnvart mjög eyðslufrekum eldri bifreiðum sem enn eru í umferð. Skemmst er að minnast þess að við erum enn með mjög stóran flota mjög eyðslufrekra bifreiða sem fluttar voru inn á árunum 2008–2009, áður en vörugjaldakerfinu var breytt til muna. Verulegur ávinningur gæti falist í því að styðja við að þær yrðu teknar úr umferð með úreldingarstyrkjum sem miðuðust við einhvers konar losunarviðmið sem slík. Það þætti mér áhugavert til að hraða orkuskiptum enn frekar en raun ber vitni.

Í stuttu máli er margt ágætt í frumvarpinu en við eigum ekki að óttast árangurinn í þessu, við eigum einmitt að hvetja til hans og fagna honum ef við náum honum og fagna þeim tímabundna kostnaði sem í því felst. Kostnaðurinn af hinu er svo miklu meiri þegar fram í sækir.