150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

breyting á ýmsum lögum um skatta.

432. mál
[18:17]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Bara til að taka af öll tvímæli er ég sjálfur mjög hrifinn af tengiltvinnbílum. Ég óttast að við séum kannski að flýta okkur um of að afnema ívilnun vegna þeirra með því að gera það strax í lok næsta árs. Þorri nýrra bifreiða sem fluttar eru inn og njóta þessara ívilnana eru tengiltvinnbifreiðar enn þá og eru kannski heppilegri fjölnota bifreiðar í dag. En auðvitað eru rafmagnsbifreiðarnar að breytast mjög hratt, drægi þeirra er alltaf að aukast meira og meira.

Það sem ég átti við er að í stærri bifreiðunum er myndin aðeins flóknari þar sem þetta eru stórir og þungir bílar þar sem hleðslan dugir mjög skammt. Í smærri tengiltvinnbílum er ávinningurinn alveg klár, sem snattbílar innan bæjar, ég þekki það ágætlega, þar getur talsvert drjúgur hluti af heildarakstri verið ekinn á rafmagni. En við þurfum að sýna miklu meiri metnað og þó að þjóðhagslegi ávinningurinn, eins og hv. þingmaður kom inn á, sé ekki jafn mikill sem hlutfallslegt vægi af gjaldeyristekjum okkar og hann hefði verið fyrir fáeinum árum síðan er hann engu að síður umtalsverðar. Sparnaðurinn gæti verið umtalsverður.

Stóra málið er auðvitað að við þurfum að vera miklu metnaðarfyllri í þágu umhverfisins. Við erum bara svo heppin og við njótum þeirra forréttinda sem þjóð að beinir efnahagslegir hagsmunir okkar og umhverfishagsmunir fara algerlega saman í þessum efnum. Við græðum á því að ráðast í orkuskiptin og eigum þar af leiðandi að vera miklu metnaðarfyllri en aðrar þjóðir í að ganga fram í þeim efnum af fullri hörku og knýja á um þessar breytingar á fáum árum því að við munum uppskera mjög myndarlega af því, fyrst og síðast í þágu umhverfisins en ekki síður efnahagslega.