150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

breyting á ýmsum lögum um skatta.

432. mál
[18:19]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður kom aðeins inn á stóru tækin. Þetta er alveg hárrétt. Þegar ég sat í framkvæmdaráði Akureyrarbæjar og við vorum að skoða strætisvagnamálin þá minnir mig að hefðbundni olíustrætisvagninn, dísilstrætisvagninn, kostaði kannski 30 milljónir. Metanvagninn var á 50–60 milljónir fyrir tveimur, þremur árum og rafmagnsstrætóinn 80–90. Þetta eru gríðarlega dýr tæki en hafa lækkað mikið síðan og hratt. En það er alveg hárrétt að með stóru tækin er töluvert lengra í land, held ég, segjum bara langferðabifreiðar í ferðaþjónustu og slíkt, svo því sé haldið til haga.

Ég er sammála hv. þingmanni. Ég hef nefnilega smááhyggjur af því að við séum að gera það of snemma að taka ívilnanir af tengiltvinnbílunum. Ég hefði viljað skoða það og vonandi fer efnahags- og viðskiptanefnd í gegnum það, þar sem hv. þingmaður situr, og metur það í einhverju samhengi og aflar gagna um það hvort þetta sé of snemmt. Það væri mjög gott.

Síðan er eitt atriði sem mig langar rétt að minnast á. Við vorum að ræða um metangasið áðan. Það eru komnar stöðvar sem geta gert það að fljótandi eldsneyti. Þá erum við farin að tala um skip og aðra hluti sem geta nýst sem gæti verið töluverður akkur fyrir okkur. Ég þekki ekki kostnaðarverðið á orkueiningu en það gæti verið mjög áhugavert fyrir Íslendinga að skoða hvaða möguleikar væru í því samhengi. En ég ítreka það að punkturinn er kannski að ég hef haft smááhyggjur af því hvort við erum að aftengja þessar ívilnanir of snemma af tengiltvinnbílunum vegna þess að ég held að þetta sé svolítið sálfræðilegt skref sem almenningur og við öll erum að taka með því að fara fyrst í þá áður en við tökum stóra skrefið sem er að fara yfir á hreinan rafmagnsbíl eða aðra kosti. Ég er sammála því.