151. löggjafarþing — 39. fundur,  16. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna laga um kynrænt sjálfræði.

21. mál
[15:39]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Hæstv. forseti. Þessi þrjú frumvörp sem lúta að kynrænu sjálfræði eru stór tímamótamál. Börn sem upplifa það sem við nefnum kynmisræmi eða víkja frá því sem almennast gerist, hvort sem það er andlegt eða líkamlegt, eru viðkvæmur hópur. Rannsóknir sýna að mörg þeirra sem í hlut eiga verða fyrir áreitni og jafnvel ofbeldi, mæta miklum erfiðleikum og upplifa því geðræna erfiðleika í ofanálag, sem reynist mörgum því miður ofviða með raunalegum endi. Í þessari umræðu hafa fallið þung orð af takmörkuðu innsæi, málið skrumskælt og afbakað á ónærgætinn hátt og jafnvel vegið að starfsheiðri fagfólks í heilbrigðisþjónustu. Það rasar ekki nokkur einstaklingur að svona afdrifaríkri ákvörðun um sitt líf. Þetta er ekki hugdetta heldur langt ferli. Í því ferli taka margir þátt; fagfólk, sálfræðingar, geðlæknar, sérfræðilæknar og félagsráðgjafar, að ógleymdum nánustu aðstandendum sem í hlut eiga og leiða málið áfram af nærfærni. Við eigum að hafa í huga umburðarlyndi og stóru gildin. Lífið er dýrmætt og viðkvæmt. Margir hafa reynt að setja þetta í orð. Einn sagði: Lífið er bara lítið skjálfandi gras, og það eru orð að sönnu.