Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

stjórn fiskveiða.

349. mál
[14:17]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Sannast sagna þá gerði ég ráð fyrir því að þessi spurning kæmi upp og þó að ég þurfi að gera athugasemd við það sem fram kemur hjá hv. þingmanni að full sátt hafi ekki náðst var kannski, svo öllu sé til haga haldið, verulegur ágreiningur um nákvæmlega þetta atriði. Þegar ég kem að þingmálaskrá fráfarandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þarf ég að taka afstöðu til þess hvaða mál af þeirri þingmálaskrá skuli lögð fram um leið og ný ríkisstjórn tekur við. Ég taldi rétt að leggja fram öll þau mál sem væru til þess fallin að ná afgreiðslu hér í þinginu og þess vegna skynsamlegra að hluta þetta tiltekna mál í sundur og freista þess að ljúka við þann hluta frumvarpsins sem sátt væri um.

Það er ekki þar með sagt að það þurfi ekki að fara betur yfir veiðistjórn á grásleppu og um það eru, eins og kemur fram í máli hv. þingmanns, töluvert andstæð sjónarmið. Svo öllu sé til haga haldið þá eru grásleppuveiðimenn víðast hvar sjálfir á því að rétt sé að hlutdeildarsetja grásleppu þó að Landssamband smábátaeigenda sé á öndverðum meiði. Þessi niðurstaða varð úr, að leggja fram þennan hluta frumvarpsins óbreyttan þar sem um er að ræða veiðistjórn á sandkola og hryggleysingjum þar sem um þann hluta frumvarpsins væri ekki ágreiningur.