Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

stjórn fiskveiða.

349. mál
[15:08]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Með frumvarpi því sem hér er lagt fram er verið að setja sandkola og sæbjúgu, hryggleysingja, í gjafakvótakerfið. Með frumvarpinu er verið að úthluta veiðiréttindum sem gerir mönnum kleift að selja eða leigja þessa auðlind þjóðarinnar. Með frumvarpinu er verið að mismuna þegnum landsins, þ.e. fáir fá auðlind þjóðarinnar endurgjaldslaust á meðan almenningur fær ekkert.

Sandkoli veiðist að mestu í hlýja sjónum sunnan og vestan lands í dragnót. Það er vel þekkt að útbreiðsla fiska breytist með breytingum á hitastigi. Það gerðist t.d. með skötuselinn hér um árið. Ef sjórinn hlýnar þá fer hann að veiðast meira fyrir norðan hjá útgerðum sem ekki hafa yfir neinum kvóta að ráða. Með þessu frumvarpi er matvælaráðherra að búa til enn einn hvata til brottkasts og matarsóunar. Þegar fiskurinn sandkoli fer að veiðast fyrir norðan mun hann verða meðafli hjá útgerðum fyrir norðan og hvað munu þær gera? Þær geta annaðhvort farið að leigja eða það verður brottkast. Þetta er eingöngu meðafli sem er þarna á ferðinni. Þetta frumvarp mun eingöngu leiða til brottkasts svo það sé tekið fram. Ég vil taka fram og ég bendi á að það er fiskifræðingur í þingflokki Vinstri grænna, hv. þm. Bjarni Jónsson. Hann hefði gjarnan mátt koma að samningu þessa frumvarps og ég efast ekki um að hann hefði bent á þetta atriði, að sandkoli muni örugglega fara að veiðast fyrir norðan.

Fiskveiðirökin í frumvarpinu eru engin. Þegar ég les frumvarpið þá er ekkert minnst á verndun fiskstofna, ég vek athygli á því. Það er minnst á það á einum stað, með leyfi forseta:

„Heildarafli við veiðar á sæbjúgum undanfarin fiskveiðiár hefur verið umfram veiðiráðgjöf og veiðar á mismunandi ráðgjafarsvæðum verið stöðvaðar fyrir lok veiðitímabils. Vegna endurskoðunar ráðgjafar hefur afli við sæbjúgnaveiðar auk þess dregist mikið saman. Þetta er óheppilegt, leiðir til kapphlaups um veiðarnar […]. Léleg afkoma mun vera af veiðunum.“

Rökin á bak við þetta frumvarp, eins og kemur fram í 3. kafla greinargerðarinnar, um samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar, eru fyrst og fremst efnahagsleg rök. Það eru engin rök um verndun fiskstofna. Verndun fiskstofna er grundvöllur kvótakerfisins og hér í þessu plaggi er ekkert minnst á það. Það er talað um að þetta sé „reist á mati á því að sú hagkvæmni, sem leiði af varanleika aflahlutdeildar og heimildum til framsals hennar og aflamarks, stuðli að arðbærri nýtingu fiskstofna fyrir þjóðarbúið í samræmi við markmið 1. gr. laganna“. Það er bara verið að taka efnahagslegu rökin, eingöngu, ekki það að vernda sandkola eða slíkt. Ég get tekið dæmi úr skýrslu Hafrannsóknastofnunar um sandkolann. Þar kemur alveg skýrt fram að Hafrannsóknastofnun veit ekki um ástand stofnsins. Það er alveg klárt mál. Ég get tekið dæmi. Í skýrslunni frá 2021 þar segir bara hreint og beint:

„Óvissa er um þróun stofnstærðar á komandi árum þar sem takmarkaðar upplýsingar eru til um stærð árganga sem eru að bætast í veiðistofninn.“

Svo er talað um að það séu ekki til nægilega góðar upplýsingar um nýliðun sandkola þar sem ungfiskur heldur sig að hluta grynnra en stöðvanetið nær til. Þetta er margendurtekið. Það er engin óvissa. Ég spurði hæstv. ráðherra að þessu áðan og hann minntist reyndar á það að ég hefði gleymt að minnast á sæbjúgun og það er alveg hárrétt. Það er nákvæmlega það sama uppi á teningnum varðandi sæbjúgun. Ég er með skýrslu frá 2021 frá Hafrannsóknastofnun, stofnmatsskýrslu, og þar segir, með leyfi forseta:

„Sæbjúgnastofnar við Ísland eru taldir meðal þeirra stofna þar sem undirliggjandi gögn fyrir stofnmat eru rýr eða takmörkuð “

Það eru ekki upplýsingar um þessa stofna. Það eru engin líffræðileg rök fyrir því að setja þá undir kvóta. Það er alveg kristaltært. Hæstv. ráðherra minntist hér á varúðarregluna. Við skulum fjalla aðeins um hana líka hér. Þekktasta varúðarreglan kemur fram í 15. meginreglu Ríó-sáttmálans og þar segir, með leyfi forseta:

„Í því skyni að vernda umhverfið skulu ríki í ríkum mæli beita varúðarreglunni eftir því sem þau hafa getu til. Skorti á vísindalegri fullvissu, þar sem hætta er á alvarlegu eða óbætanlegu tjóni, skal ekki beitt sem rökum til að fresta kostnaðarhagkvæmum aðgerðum sem koma í veg fyrir umhverfisspjöll.“

Ég vek athygli á þessu, þar sem hætta er á alvarlegu og óbætanlegu tjóni. Það er engin hætta á óbætanlegu eða alvarlegu tjóni ef sandkoli og sæbjúgu fara ekki í kvóta. Það er alveg kristaltært og ég get sagt af hverju. Í fyrsta lagi eru ekki líffræðileg rök fyrir því og í öðru lagi getum við tekið samanburð við grásleppuna. Núna er búið að vera að baksa við að reyna að koma henni í kvóta, það hefur ekki verið gert. Það er engin hætta, stofninn er ekkert að fara að hrynja, hann lifir enn þá góðu lífi í hafinu og það er heldur engin fyrirsjáanleg hætta að sandkoli muni deyja út við Íslandsstrendur. Þetta er meðafli með öðrum tegundum. Það er grundvallaratriði. Það sem er undir hérna er að það gengur eitthvað illa í þessum geira. Það kemur svo bersýnilega fram í greinargerðinni að þess vegna er verið að gera þetta. Ég leyfi mér að lesa hér upp úr greinargerðinni með frumvarpinu: „Léleg afkoma mun vera af veiðunum. Hefur þetta raunar leitt útgerðir skipa á þessum veiðum til að leita gagnkvæmra samninga sín á milli um skiptingu veiðimagns.“ Þær eru sjálfar byrjaðar að finna út hvað er hagkvæmast fyrir þær, útgerðirnar sín á milli, í núverandi kerfi. Ef horft er út frá atvinnufrelsissjónarmiði þá eru engin líffræðileg rök til að takmarka atvinnufrelsi í veiðum á sandkola og sæbjúgum eins og gert er í þessu frumvarpi, engin. Líka það að varúðarreglan sem ráðherrann minntist á stenst ekki skoðun. Það er bara svo einfalt. Það er engin hætta á alvarlegu eða óbætanlegu tjóni. Það hafa engar fréttir verið að því og Hafrannsóknastofnun veit ekki hvort þessi stofn sé að fara að hrynja, hvorki sandkoli né sæbjúgu.

Ég er nú ekki oft sammála Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi eða LÍÚ, þau mættu nú breyta gjarnan um nafn, LÍÚ er inngreypt í þjóðarsálina, en það kemur fram í greinargerðinni að þau leggja áherslu á að brýnt sé að efla hafrannsóknir á Íslandsmiðum, m.a. þar sem stofnar eins og sandkoli eigi í hlut. Það þarf að efla rannsóknir áður en menn fara að skoða það að setja þetta hér í kvóta. Það á ekki að gera það. Þannig að það er alveg kristaltært að einu rökin eru efnahagsleg. Það að það gangi illa í einhverri atvinnugrein og það hjá útgerðum sem eru þegar farnar að leita gagnkvæmra samninga til að hagræða hjá sér — það á bara atvinnulífið að sjá um sjálft. Þannig virkar nú hinn frjálsi heimur og markaðshagkerfið.

Það var minnst hér áðan á makrílinn, að smábátar hefðu fengið makrílkvóta og þeir seldu hann strax. Kvótakerfið — það kemur svo vel fram í síðasta þætti Verbúðarinnar hvað verið er að gera. Það er verið að búa til fjármagn, það er verið að búa til eign með löggjöf. Það er verið að takmarka eitthvað. Ef við myndum takmarka utanlandsferðir og þeim yrði úthlutað þá gæti ég farið að selja réttinn til utanlandsferða, alveg eins og hérna, það er verið að búa til eign, búa til fjármagn, búa til sjálfstæð verðmæti sem er kvótinn. Það er hægt að veðsetja kvóta, leigja hann út eins og gert er í ríkum mæli og það er verið að takmarka aðgang annarra að honum. Það er grundvallaratriði. Löggjafinn á ekki að vera að búa til verðmæti með þessum hætti, hann á bara að gera það í alveg lengstu lög. Síðan var leyft frjálst framsal á þessum kvóta og þá byrjaði ballið. Við erum enn þá að standa í sama stappi. Þetta er sennilega orðin 40 ára barátta núna til að leyfa atvinnufrelsi í þessari grein. Meira að segja frjálsar handfæraveiðar sem ógna ekki fiskstofnum eru bannaðar. Þær eru takmarkaðar við 48 daga á ári, alveg með hreinum ólíkindum. Það var komið inn á tímabundna samninga varðandi kvótann. Jú, það má sjálfsagt gera það. Það mætti koma inn tímabundnum samningum í þessu máli. Aðeins um þá hagræðingu sem hér er verið að fara fram á, sem ríkisvaldið á að koma með til að útgerðirnar fái nú kvóta og geti selt hann og leigt hann eða veðsett hann, hvernig sem það verður. Ég man svo vel fyrir mörgum árum síðan að það var dagakerfi við strandveiðarnar. Hverjir kröfðust þess að fá kvóta? Jú, það voru fiskimennirnir, veiðimennirnir sjálfir. Þeir fengu hundruð milljóna. Dögum var breytt í kvóta og þú varst allt í einu kominn með 140–150 milljónir. Ég þekki þessa sögu. Allir ættu að þekkja þessa sögu. Það sem er að eiga sér stað er alveg klassískt. Þetta er „capitalisation“, það er verið að skipta upp markaðnum og svo geta menn farið að selja sína hluta á milli. Hérna er það í krafti þess að það verði aukin hagkvæmni og meiri arður af greininni. Hv. þingmaður minntist á það að áður fyrr var verið að veiða fisk á gríðarlega óhagkvæman hátt. Af hverju var það? Það var af því að ríkisvaldið gerði aldrei kröfu um hagræðingu. Þetta var þannig að aumasta útgerð landsins, sama hver það var, árið 1970, 1980, það var farið í þingmanninn, þingmaður fór í ráðherrann, ráðherrann fór í seðlabankastjórann og hann felldi gengið. Frekar var öll þjóðin gerð fátækari sem nam gengisfellingunni en að gera kröfu um að þessi atvinnugrein hagræddi. Þessi hagræðing kemur ekki fyrr en með kvótasetningunni, þessi hagræðing sem hefði þurft að koma miklu fyrr og við erum enn þá að bíta úr nálinni með krónu sem enginn trúir á. Það á uppruna sinn í því að atvinnugreinin gat stýrt genginu eins og henni hentaði, algjörlega. Það var aldrei gerð nein krafa um samruna innan greinarinnar eða neitt svoleiðis. Aumasta útgerð landsins gat farið fram á gengisfellingu og þannig var það. Það er nákvæmlega sama þegar maður les þetta frumvarp hérna, maður hugsar: Já, það er enn þá sama hugsunin í gangi.

En núna bætti ráðherra við varúðarreglunni og ég vona að ég sé búinn að svara því að það sé ekkert óbætanlegt tjón þó að sandkoli og sæbjúga fari ekki í kvóta, enda eiga þær tegundir ekki að fara í kvóta. Það er engin þörf á því. Það mun bara auka brottkast, mun auka spillingu í kerfinu og við erum að halda áfram með sömu þróun. Ef ég man rétt þá voru árið 1998 sex tegundir í kvóta. Smátt og smátt er verið að fjölga þeim. Ég held að þær séu komnar yfir 32, það var einhver fróður maður sem sagði mér það nýlega. Núna er verið að bæta tveimur við og þá eru komnar 34 og svo kemur grásleppan, þá eru komnar 35 og svona mun það halda áfram þannig að þessu verður algerlega lokað. Núna höfum við smá von innan strandveiðanna, sem er bara mannréttindabarátta. Við höfum fyrirliggjandi mannréttindaálit Sameinuðu þjóðanna sem lýtur að því að íslenska fiskveiðistjórnarkerfið hafi brotið jafnræðisregluna sem tryggð er í mannréttindasáttmálum sem Ísland hefur gerst aðili að. Ég efast ekki um að sá úrskurður er ekki tekinn létt þarna úti, að svona kerfi brjóti mannréttindasáttmála, en það var gert. Svarið við því af Íslands hálfu voru strandveiðarnar. Gefa smá frelsi, gefa smá atvinnufrelsi. Núna er verið að takmarka atvinnufrelsi gagnvart þessum tegundum sem eru meðafli, sérstaklega sandkola. Það er alveg með ólíkindum að flokkur eins og Sjálfstæðisflokkurinn, sem kennir sig við frelsi og einstaklingsframtak, skuli vera að skrifa upp á svona eina ferðina enn. En það er einföld skýring á því. Það er vegna þess að flokknum er algjörlega stjórnað af atvinnugreininni og svo eru Vinstri grænir komnir um borð í þessa baráttu um að halda þjóðinni í heljargreipum, áratugaþrasi og með rökum sem einfaldlega standast ekki skoðun. Það eru engin líffræðileg rök. Það er fyrst og fremst einhver krafa um hagkvæmni sem stenst ekki. Ef það á að auka hagkvæmni í þessari atvinnugrein í veiðum á sandkola og sæbjúgum þá á atvinnugreinin að gera það sjálf. Þeir eru þegar byrjaðir á því eins og ég vitnaði til. Þeir eru þegar farnir að leita samninga sín á milli. Hér kemur það fram: „Hefur þetta raunar leitt útgerðir skipa á þessum veiðum til að leita gagnkvæmra samninga sín á milli um skiptingu veiðimagns.“ Þær eru sjálfar að auka hagkvæmnina. Þannig á að vera. Þannig er það í öllum markaðshagkerfum heimsins nema kannski á Ísland í þessari atvinnugrein.