Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

stjórn fiskveiða.

349. mál
[15:24]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Já, ég mun styðja allt sem takmarkar kvótasetningu á fiski. Tímasetning gerir það í tíma jú. Það er allt betra en núverandi kerfi. Ég myndi samþykkja tímasetningu ef ekki er hægt að vísa þessu máli frá. Ég tel að það séu engin rök fyrir því. Þegar vísindalegu rökin eru ekki fyrir hendi þá er vísað í efnahagslegu rökin. Ef þú skoðar 1. mgr. laga um stjórn fiskveiða þá eru þetta fyrst og fremst vísindaleg rök. Þegar er verið að takmarka fiskstofna á grundvelli vísindanna þá koma efnahagslegu rökin fram. Þá er það gert. Þegar við erum að takmarka þetta erum við að gera það með hagkvæmum hætti. Og hakvæmasti hátturinn sem var fundinn út var kvótasetning til að takmarka veiðarnar. Þetta eru ekki tvenn sjálfstæð rök. Ég get ekki lesið það þannig. Það er fyrst og fremst verndun sjávarstofna og það er varúðarreglan. Og varúðarreglan á ekki við varðandi sandkola og sæbjúgu vegna þess að við erum ekki að verða fyrir óbætanlegu tjóni við að setja það ekki í kvóta. Líka það að Hafrannsóknastofnun veit ekkert um ástand stofnanna. Þetta eru ekki stórir stofnar, þetta er meðafli, sandkoli fyrst og fremst, og þetta mun auka brottkast. Þetta mun auka sóun á verðmætum. Það er það sem er undir.

Ég tel að efnahagslegu rökin — í frjálsu markaðshagkerfi á markaðurinn sjálfur að leiða það í ljós eins og útgerðirnar eru þegar farnar að gera. Það á ekki að vera þannig að ríkið eigi að fara að hjálpa með „cartelisation“. Þegar markaðsmisnotkun er, þegar hún á sér stað ofan á allt, menn fara að skipta á milli sín markaðnum þegar hann er farinn að minnka, það er alveg klassískt í samkeppnisrétti. Ísland er með fullkomna einokun. Vandamálið í hinum frjálsa heimi er að það vantar eftirlitsaðilann. Íslenska kvótakerfið er hin fullkomna einokun af því að ríkisvaldið sér um eftirlitið. Það eru þeir sem setja lögin, það eru þeir sem fylgjast með að allir taki sína prósentu af kökunni. Það er ekki hægt þegar þú ert að skipta markaði varðandi sápuframleiðslu eða hvað sem er í heiminum. Þetta er algjört „cartelisation“ og þetta er „cartelisation“ með stuðningi ríkisins.