Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

stjórn fiskveiða og lög um veiðigjald.

350. mál
[16:34]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnirnar. Ef ég byrja á öfugum enda, af því að hv. þingmaður spyr sérstaklega um krækling og möguleika sem þar eru fyrir hendi, þá er það alveg kýrskýrt að það eru mjög miklir möguleikar þar á ferðinni. Ég hef nú þegar fundað með þeim sem hafa stundað þessa kræklingarækt í atvinnuskyni og talað fyrir því að það séu mjög mikil sóknarfæri að finna í þessari atvinnugrein.

Hv. þingmaður spurði sérstaklega um þessi álögðu veiðigjöld sem hafa verið fyrir hendi og hafa verið rúmlega 8 milljónir á ári hjá Fiskistofu. Því er til að svara að það hefur verið erfitt að innheimta hluta þeirra vegna þess að það hafa einmitt komið upp deilur um það hvort sjávargróður hafi verið tekinn innan eða utan netlaga. Eins og áður kom fram þá hafa landeigendur í þessu efni vísað til eignarréttarákvæða stjórnarskrárinnar þegar þang er tekið innan netlaga og telja þar með að grundvöllurinn sé ekki fyrir hendi. Þar með eru í raun og veru að mati ráðuneytisins forsendurnar ekki fyrirliggjandi fyrir því að leggja á veiðigjöld.

Þessi nýting og þessi umfjöllun er náttúrlega alltaf byggð á samkomulagi við jarðareigendur og það hlýtur að vera með þeim hætti. Eins og kemur fram í fyrirspurn hv. þingmanns er þetta vandmeðfarið vegna þessara marka sem eru við netlög og það hvað gerist innan þeirra og hvað utan.

Ég veit að hv. þingmaður þekkir þetta mál vel vegna þess að núgildandi lög voru einmitt sett í hennar tíð í ráðuneyti (Forseti hringir.) sjávarútvegsmála og veit og skilur (Forseti hringir.) að við þurfum að byggja mjög vel þennan vísindalega grunn undir þessar ákvarðanir en um leið gæta mjög vel að öðrum reglum og lögum í þessu efni.