153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

Fangelsismál.

[14:14]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það væri ágætt að hafa lengri tíma til að ræða þessi mál. Margs er að spyrja og því er mörgu að svara. Ég skal reyna að gera mitt besta á þessum skamma tíma sem okkur er úthlutaður.

Markmið fangavistar er auðvitað að refsa fyrir afbrot og tryggja betrun fanga. Mikið hefur verið gert í þeim efnum og ber að nefna geðheilbrigðisteymið sem hér var minnst á áðan sem hefur sinnt og í raun gjörbreytt meðferð fanga. Fjölga þarf ýmsum sérfræðingum innan fangelsisins og styrkja geðheilbrigðisteymið. Til að mynda höfum við verið að tala um að bæta iðjuþjálfum þar við.

Spurt er hvort öryggismálin séu í lagi. Ég hef rætt við félag fangavarða og fangaverði og við erum alveg sérstaklega að ræða öryggisbúnað fangavarða sem núna verður bættur með auknu fjármagni, ein af þeim úttektum sem hafa verið gerðar síðan ég kom í ráðuneytið.

Það hefur verið mikill og viðvarandi rekstrarvandi. Ég setti greiningarvinnu af stað strax í byrjun ársins, réði utanaðkomandi aðila til að skoða með fangelsisyfirvöldum hvað við gætum gert betur í rekstrinum, hvernig við stæðum, hver framtíðarsýnin gæti orðið í þessum málum og hvert við ættum að stefna. Á grundvelli þess hef ég getað lagt fram þessar tillögur til fjármálaráðherra fyrir 2. umr. fjárlaga sem nú hefur verið svarað í tillögum hans. Þær munu auðvitað gjörbreyta aðstöðunni hjá okkur. Einnig verður að hafa í huga hvað fangelsismálayfirvöld hafa fengið í fangið; miklu lengri dóma, fleiri dóma og gríðarlega aukinn fjölda í gæsluvarðhaldi, eitthvað sem var kannski ekki alveg fyrirséð og hefur að því leyti þyngt róðurinn mjög mikið. Starfshópur var að fara yfir aðgerðir og koma með tillögur til styttingar á boðunarlista, verið er að vinna í þeim og þá náum við á grundvelli þessa aukna fjármagns að fjölga fangavörðum og nýta fangelsin betur. Það mun auðvitað hjálpa okkur mjög mikið í þessum efnum.

Það verður líka að nefna að tekin var ákvörðun um það fyrir nokkru að fara í miklar framkvæmdir við fangelsið á Litla-Hrauni og þar stendur yfir undirbúningur að framkvæmdum sem áætlað er að kosti um 2 milljarða. Það mun gjörbreyta allri aðstöðu fanga, fangavarða og móttökuskilyrðum fyrir börn eða fjölskyldur fanga sem koma í heimsókn og mun gefa fangavörðum fleiri möguleika á að skipta upp fangelsunum þegar um er að ræða hópa í átökum, til að mynda þeim sem hér er spurt um, sem hefur farið vaxandi. Einnig má taka fram að við höfum verið að auka mjög aðrar lausnir eins og ökklabönd, samfélagsþjónustu og dvöl á Vernd.

Spurt er hvort til standi að opna á Akureyri. Ég hef ekki haft hugmyndir um það. Aftur á móti rekum við tvær mjög óhagkvæmar einingar í dag, annars vegar á Sogni og hins vegar á Kvíabryggju. Rúmlega 20 fangar eru á báðum stöðum og tíu eða ellefu fangaverðir á hvorum stað. Ég held að mikilvægt sé að horfa til þess að byggja þetta opna fangelsi upp á einum stað með þeim úrræðum sem þar eru. Við höfum frekar verið að horfa vestur á land, á Kvíabryggju, í þeim efnum. Á sama tíma hef ég minnst á það við heilbrigðisráðherra og félagsmálaráðherra að skoða Sogn sem mögulega réttarvörsludeild fyrir þá fanga sem hafa verið sviptir. Það er eitt af því sem hefur verið til vandræða, eins og hér er spurt um, þ.e. fangar sem eiga við þau vandamál að stríða að þeir þurfa á læknisþjónustu að halda. Þeir eiga auðvitað rétt á innlögn á sjúkrastofnun og þeirri heilbrigðisþjónustu sem aðrir borgarar fá. Það eru ákveðnar brotalamir í þessu og menn hafa verið með hugmyndir að lausnum í þeim efnum. Ég hef nefnt að slíkt gæti alveg sérstaklega verið mjög gott í uppbyggingu á Sogni vegna þess að geðheilbrigðisteymið verður eflt — þrátt fyrir að læknirinn sé að hætta þá stendur ekki annað til en að ráða nýjan lækni, hann er ekki að hætta nema af eðlilegum ástæðum og hefur skilað mjög góðu starfi. Við ætlum að efla þetta teymi. Við ætlum að efla þessa þjónustu og kominn er grundvöllur að því núna í þessu viðbótarfjármagni sem við erum að fá inn.

Það hallar á konur innan fangelsiskerfisins, þ.e. í vistunarúrræðum, og úr því þarf að bæta. Við þurfum að skoða það í framtíðaruppbyggingunni. Það er reyndar sérálma á Sogni en engin aðstaða á Kvíabryggju. (Forseti hringir.) Við höfum alveg sérstaklega tekið ákveðið tillit til kvenna í vistunarúrræðum á Hólmsheiði.