153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

Fangelsismál.

[14:19]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda umræðunnar, þessarar sérstöku umræðu, hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur, fyrir þetta nauðsynlega umræðuefni sem við erum að taka upp hér í dag og hæstv. ráðherra fyrir að vera með okkur. Það eru ekki bara þessar nauðsynlegu spurningar sem hv. þm. Helga Vala Helgadóttir kemur með fram hér í dag heldur vakna í rauninni um leið hundruð annarra spurninga. Ég tók sérstaklega eftir því og furða mig alltaf hvað mest á því þegar verið er að tala um hinn mikla fíknivanda og hina miklu fíkniefnaneyslu í fangelsunum sjálfum — hvers vegna í ósköpunum er ekki hægt að koma í veg fyrir þessa neyslu? Eru þessir einstaklingar ekki komnir í fangelsi og í umsjá fangavarða og eftirlitsaðila? Hvernig í veröldinni er þetta mögulegt? Það er eiginlega spurningin. Fyrir utan það sem hv. þm. Helga Vala benti á, að 50 refsimál hafa fyrnst á síðustu tveimur árum vegna þess að við erum ekki í stakk búin til að fylgja eftir þeim dómum sem hafa verið felldir vegna glæpa sem eru framdir í landinu. Þetta er í raun í mínum huga algerlega óskiljanlegt.

Mér finnst líka nauðsynlegt að koma á framfæri hvernig það er þegar einstaklingar eru dæmdir í fangelsi í X marga mánuði fyrir fíkniefnalagabrot eða hvað eina annað. Þeir fara í meðferð, þeir eignast fjölskyldu, þeir eru búnir að snúa við blaðinu, jafnvel komnir í nám og ég veit ekki hvað og eru sjálfir búnir að betra sig, eru sjálfir komnir í miklu betri stöðu en þeir gætu mögulega nokkurn tímann verið í ef það væri búið að stinga þeim í steininn. En nei, góðan daginn, kæru vinir, það er bankað upp á einu, tveimur árum seinna þegar viðkomandi er kominn í blússandi góða stöðu og honum stungið inn.

Virðulegi forseti. Það er eitthvað verulega bogið við þetta kerfi.