153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

Fangelsismál.

[14:22]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur fyrir að brydda upp á þessari mikilvægu umræðu. Á meðal þeirra spurninga sem hv. þingmaður setur hér fram til hæstv. dómsmálaráðherra eru spurningar varðandi betrunarþátt fangavistar, hvort hann telji fangelsi landsins nægilega í stakk búin til þess að sinna þeim þætti fangelsisvistar. Mér þykir þessi spurning áhugaverð og ætla svolítið að nota hana til að ræða aðeins um áhrif fangelsisvistar og það hversu lítil varnaðaráhrif fangelsisrefsingar hafa yfir höfuð.

Á síðustu árum og áratugum hafa orðið miklar samfélagsbreytingar í heiminum sem m.a. hafa leitt til þess að skilningur okkar á mannlegri hegðun og því hvernig hægt er að hafa áhrif á hana hefur aukist til muna. Rannsóknum hefur fleygt fram, bæði tækninni en líka samfélagslegum hugmyndum okkar. Rannsóknir sem framkvæmdar hafa verið hér á landi og í öðrum löndum sýna að fangar sem afplána sinn dóm innan veggja fangelsis eru líklegri til að brjóta af sér aftur en þeir sem afplána með öðrum hætti, utan fangelsis með þátttöku í samfélaginu. Þessar rannsóknir sýna að það sem fyrst og fremst virðist hafa áhrif á hegðun fólks og tilhneigingu til afbrota og möguleika þess til að komast út úr þeim vítahring sem afbrotastarfsemin getur verið er þátttaka í samfélaginu, það sem kallast samfélagslegt taumhald, og tilfinning um að tilheyra, tilfinning um að maður hafi markmið og einhvern tilgang og einhverja ástæðu til að hlýða reglum samfélagsins.

Mig langar til að koma með þennan punkt inn í þessa umræðu þar sem það er alveg ljóst að sú þróun sem hefur verið hér á undanförnum árum og er að verða núna er svolítið í takt við það sem var framan af 20. öldinni þegar fangelsi fylltust vegna þyngingar refsinga og (Forseti hringir.) fleiri refsidóma. Ég velti fyrir mér hvort við séum að stíga skref aftur á bak með því að vera með fókusinn þar, (Forseti hringir.) hvort við ættum ekki að halda áfram að leita annarra leiða til að koma í veg fyrir afbrot.