153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

Fangelsismál.

[14:24]
Horfa

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu og fyrir þær umræður sem hafa verið hér á undan. Þessi mál hafa vakið athygli mína í þó nokkur ár. Mig langar að rýna nánar í stöðu kvenna sem dómþola á Íslandi. Þær konur sem þurfa að bíða lengi eftir að fá að afplána refsingu sína samkvæmt dómi geta allt eins átt von á því að sök þeirra fyrnist og þar með falli afplánun refsingar niður þegar öll fangelsi eru full og fregnir berast af því að 50 dómar hafi fyrnst vegna skorts á fangelsisplássum. Það væri áhugavert að vita hversu margir þessara dóma hafa fallið á konur. Þó nokkur fjöldi kvendómþola á Íslandi bíða þess að fá að afplána refsingu sína. Fyrningarfresturinn líður á meðan beðið er og á endanum fyrnast refsingar sem leiðir til þess að dómþolendur sitja ekki af sér og fá ekki að taka út sína refsingu. Þetta er mjög íþyngjandi fyrir þá sem þurfa sem þurfa að þola dóm vegna refsiverðs brots og samkvæmt skilgreiningu 68. gr. stjórnarskrárinnar og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um bann við pyndingum og annarri ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu sem meta skal hverja fyrir sig, enda stigsmunur á milli þess sem telst til pyndingar eða vanvirðandi meðferðar. Vanvirðandi eða ómannleg meðferð eiga það sameiginlegt að skilgreiningar þeirra bera með sér að það taki til andlegra þjáninga sem einstaklingi er vísvitandi valdið á borð við kvíða, vanmátt eða skömm.

Þegar litið er til þeirrar þróunar sem orðið hefur allt frá árinu 2005 sem boðunarlisti Fangelsismálastofnunar ber með sér er ljóst að löggjafar- og framkvæmdarvaldið hafa fyrir alllöngu gert sér grein fyrir þeirri alvarlegu stöðu sem nú er komin upp varðandi fangelsismál á Íslandi. Með byggingu nýs fangelsis á Hólmsheiði voru tekin mikilvæg skref í þessari baráttu en sé tekið mið af fjölda þeirra sem bíða afplánunar í dag á okkur að vera ljóst að fleiri pláss vantar í fangelsið. Í ljósi þeirrar stöðu sem nú er uppi varðandi aðgengi að fangelsum þarf í rauninni frekar að skoða allt ferlið frá upphafi og þar til dómþoli hefur afplánað sína refsingu við mat á málsmeðferð dómþola. Það gefur mun raunhæfari mynd af stöðu hans og hvort meðalhóf sé brotið við meðferð máls hans innan kerfisins.