153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[16:47]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég var ekki í efnahags- og viðskiptanefnd sem ég held að þessi skattalega breyting hafi farið í gegnum. Hér í Covid-ástandinu fór allt rosalega hratt í gegnum þingið og erfitt að fá gesti og rýna mál sem var verið að hoppa í til að redda hlutunum. Maður krosslagði svolítið fingur og setti traustið í gang. Út af ástandinu þá þurfti maður bara að setja nánari rýni aðeins í annað sæti því að forgangurinn var að glíma við neyðarástand — það væri hægt að rýna hlutina eftir á og læra af þeim á einhvern hátt.

Þetta frumvarp hins vegar er að koma varanlegri breytingu í gegn á því hvernig við meðhöndlum fyrningar undir einhverju yfirskyni um tilfærslu tapsins af þessum ófyrirséðu afleiðingum breytinganna í kringum Covid. Ég er alvarlega farinn að vera á þeirri skoðun að leggja til að sparka þessu inn til nefndar á milli umræðna. Ég kalla aftur eftir framsögumanni nefndarálitsins til að útskýra þetta betur. Ég er ekki sáttur við að svona varanleg breyting á lögum um veiðigjald fari í gegnum þingið án þess að það sé rýnt nægilega vel.