153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[17:19]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Hér hafa margar góðar og mikilvægar ábendingar og athugasemdir komið fram og hugsanlega mun ég ekki bæta neinu vitrænu við það sem þegar hefur verið sagt. Ég tel engu að síður tilefni til að gera grein fyrir afstöðu minni í þessu máli. Ég vil byrja á því að taka undir með nefndaráliti 1. minni hluta í málinu sem er undirritað af hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni. Líkt og þar kemur fram hefur almenningur í landinu horft upp á stórfyrirtækin byggja valdablokkir sínar með arði af fiskveiðiauðlindinni um áraraðir og bliknar þetta gjald til þjóðarinnar, sem við erum hér að ræða, í samanburði við arðgreiðslur til eigenda stórútgerðanna.

Markmiðið með setningu veiðigjalds var að tryggja þjóðinni réttlátan hlut af arðsemi auðlindarinnar og að veiðigjaldið tæki mið af afkomu sjávarútvegsins. Það er alveg ljóst að núgildandi fyrirkomulag gjaldtöku af fiskveiðiauðlindinni, eign þjóðarinnar, er ekki í samræmi við þetta markmið. Því tek ég undir með öllum þeim þingmönnum sem hér hafa talað á undan mér og kalla eftir endurskoðun á fyrirkomulagi veiðigjalds. Þá verð ég að gera, líkt og fleiri hér á undan mér, athugasemdir við verklagið við meðferð þessa máls í þinginu. Líkt og fram hefur komið er hér ekki um að ræða hækkun veiðigjalds almenningi til hagsbóta eins og látið hefur í veðri vaka. Svo er alls ekki. Hér er um að ræða leiðréttingu á mistökum í lagasetningu. Þetta mál hefur verið lagt fram og unnið í miklum flýti hér á þinginu, enda skammur tími til stefnu fyrir ríkisstjórnina að leiðrétta þessi mistök.

Hættan á mistökum við lagasetningu er einmitt langmest þegar þingið gefur sér ekki tíma til að vanda til verka. Að mörgu er að huga og hér er um flókið mál að ræða í augum margra. Þótt ágætlega hafi verið staðið af hálfu hæstv. ráðherra að því að kynna málið fyrir þingmönnum þá verða þingmenn einnig hafa svigrúm til þess að kynna sér málið sjálfir, spyrja þeirra spurninga sem vakna og fá svör við þeim til að geta tekið ígrundaða afstöðu. Líkt og fram kemur í nefndaráliti 1. minni hluta atvinnuveganefndar er hinn hefðbundni tveggja vikna umsagnarfrestur sem vart getur talist ýkja langur tími, rúmur tími fastanefnda til að funda og ræða við sérfræðinga og hagsmunaaðila auk nægs fyrirvara á afgreiðslu mála, lykilþættir í því að tryggja faglega meðferð þingmála til þess að tryggja réttaröryggi borgaranna. Einungis með því að gæta að þessu faglega ferli má draga úr líkum á mistökum í lagasetningu. Hlýtur það að eiga enn frekar við þegar um er að ræða leiðréttingu á mistökum sem þegar hafa verið gerð líkt og hér er um að ræða. Auðvitað kunna að koma upp tilvik þar sem ytri aðstæður krefjast þess að brugðist sé við með skjótum hætti til að tryggja tiltekna hagsmuni en sú staða sem brugðist er við með framlagningu þessa frumvarps hefur legið fyrir lengi. Af þessum sökum mun ég og fleiri sitja hjá við afgreiðslu þessa máls enda leggst ég ekki gegn því, en ég má til með að harma þann flýti sem er á því og þann skamma tíma sem við höfum haft til að undirbúa það og ræða.

Líkt og hér hefur komið fram er veiðigjald ákvarðað með þeim hætti að það nemur 33% af reiknistofni hvers nytjastofns. Með ákveðnum einföldunum má segja að reiknistofn veiðigjaldsins sé ákveðinn með þeim hætti að frá aflaverðmæti sé dreginn breytilegur úthaldskostnaður og fastur kostnaður. Grundvallast veiðigjaldið þannig á rekstrarafkomu útgerðarinnar í stað þess að vera eiginleg gjaldtaka fyrir það magn afla sem kemur upp úr sjónum. Líkt og bent hefur verið á hefur þetta fyrirkomulag ákveðna kosti en það hefur líka stóra og mikla galla sem hafa komið glöggt í ljós á undanförnum árum. Margt bendir til þess að bæði verðmat á afla og mat á kostnaði við ákvörðun veiðigjalds gefi ekki rétta mynd og því ástæða til að ætla að hlutdeild þjóðarinnar sé ekki sanngjörn.

Líkt og fram kemur í nefndaráliti 2. minni hluta atvinnuveganefndar byggist útreikningur veiðigjalds á opinberri verðlagningu sem er langt frá því að endurspegla markaðsverð nytjastofna. Hefur 2. minni hluti raunar lagt fram breytingartillögu þess efnis að veiðigjald sé reiknað á grundvelli markaðsverðs og mun ég styðja þá breytingartillögu.

Í nefndaráliti 2. minni hluta er bent á að markmiðið með kvótakerfinu hafi verið þríþætt. Í fyrsta lagi að koma í veg fyrir ofveiði, í öðru lagi að auka hagkvæmni sjávarútvegarins og í þriðja lagi að koma á sanngjarnri skiptingu auðlindarentu á milli eiganda auðlindarinnar, íslensku þjóðarinnar, og þeirra sem hafa nýtingarrétt. Þá tek ég undir með 2. minni hluta varðandi það að síðasta markmiðinu hafi augljóslega ekki verið náð. En þrátt fyrir að vera sammála 1. og 2. minni hluta um að núverandi fyrirkomulag við ákvörðun veiðigjalds sé ófullkomið þá tel ég engu að síður mikilvægt að stuðla að sanngjarnri og fyrirsjáanlegri gjaldtöku fyrir fiskveiðiauðlindina og mun því ekki leggjast gegn afgreiðslu málsins en tek undir þær áhyggjur og athugasemdir sem hafa verið reifaðar hér, bæði athugasemdir við meðferð málsins hér á þingi og efni þess. Til að ná megi sátt um sjávarútveginn þarf sanngjarnar og skýrar reglur um töku veiðigjalds og tek ég undir með öðrum hv. þingmönnum sem hér hafa mælt að rétt væri að setja það verkefni í algjöran forgang.

Mig langar til að tala aðeins meira um mikilvægi þess að vanda til lagasetningar. Þeim áhyggjum hefur verið lýst í tengslum við þetta mál að það hafi tiltekna afturvirkni sem geti hugsanlega orðið einhverjum að tjóni sem ríkið gæti borið ábyrgð á. Í þessu samhengi hefur þegar verið bent á einn tiltekinn dóm þar sem lagfæringar á villu í lagasetningu af hálfu Alþingis bökuðu ríkissjóði skaðabótaskyldu gagnvart einstaklingum upp á marga milljarða. Lögum sem sett voru í miklum flýti árið 2017 var ætlað að lagfæra villu í lagasetningu af hálfu Alþingis sem fram kom í lögum á árinu á undan, nánar tiltekið í lögum nr. 116/2016, um breytingu á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um málefni aldraðra. Lagfæringin svokallaða, sem fólst í lögum nr. 9/2017, fól hins vegar í sér afturvirka réttindaskerðingu sem Landsréttur dæmdi síðan sem brot á stjórnarskrárvörðum eignarrétti einstaklinga skv. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Vegna þessara mistaka við lagasetningu reyndist íslenska ríkið bótaskylt um tæpa 5 milljarða kr. Ríkissjóð munar sannarlega um minna. Þó er ekki einungis um það að ræða að ríkið verði bótaskylt þegar það setur lög sem ganga gegn réttindum fólks heldur er það auðvitað alvarlegt mál út af fyrir sig þegar grundvallarréttindi eru fyrir borð borin. Lögð hafa verið fram lögfræðiálit um þetta efni í tengslum við það mál sem hér er til umræðu, sem ætlað er að taka af allan vafa um að Alþingi sé ekki með þessari lagasetningu að skapa bótaskyldu fyrir ríkissjóð. Þrátt fyrir þau álit hef ég áhyggjur af þeim flýti sem málið er unnið í, ekki síst vegna þeirra áhrifa sem breytingarnar hafa á fyrirtæki í sjávarútvegi og hugsanlega réttmætar væntingar fólks.

Að lokum vil ég árétta það sem ég sagði hér í upphafi að frumvarp þetta felur ekki í sér neina hækkun á veiðigjaldi þjóðinni til hagsbóta, líkt og haldið hefur verið á lofti í fjölmiðlum og víðar. Tek ég þar undir með 3. minni hluta atvinnuveganefndar, með leyfi forseta:

„Þjóðin á sjávarauðlindina og á skilyrðislaust að fá fullt endurgjald (markaðsverð) fyrir afnot af henni. Frumvarpið tekur af allan vafa um það að áfram fær stórútgerðin að arðræna þjóðina.“