135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[14:51]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég lét koma fram í máli mínu áðan þá erum við að velta mikið fyrir okkur þessum áhuga Sjálfstæðisflokksins. Reyndar orðaði ég það ekki þannig áðan en það er greinilegt að það er mikill áhugi hjá sjálfstæðismönnum að fá heilbrigðisráðuneytið og það varð raunin í þeirri ríkisstjórn sem nú situr. Það er eitt af því sem gerir það að verkum að maður veltir því mjög fyrir sér hvað sjálfstæðismenn hafa á prjónunum í sambandi við heilbrigðismálin og hvort þeir ætla sér út í róttækar breytingar á því góða heilbrigðiskerfi sem hefur verið byggt upp á síðustu árum sem er eitt af því besta sem þekkist í heimi.

Ég hef ekki útilokað það að að einhverju leyti sé um einkarekstur að ræða í heilbrigðiskerfinu enda hafa framsóknarmenn haft frumkvæði að því að það er um einkarekstur að ræða í ákveðnum tilfellum. Mér finnst hins vegar mjög mikilvægt að við vitum hvort það form er að spara ríkissjóði fjármuni og hvort það form er þegar allt kemur til alls betra gagnvart neytendum, gagnvart sjúklingum. Það er það sem við þurfum að vita áður en lengra er haldið. Við höfum nú þegar óskað eftir því í heilbrigðisnefnd að fá svör heilbrigðisráðuneytisins um það hvort reksturinn á þeim stofnunum sem eru í einkarekstri er betri en almennt er og þjónustan. Þetta þarf að liggja fyrir áður en vaðið er áfram í einhvern einkarekstur sem er jafnvel lítið hugsaður.