135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:41]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var í andsvari mínu með tvær meginspurningar á lofti. Þær gengu annars vegar út á það af hverju stefnan í gær væri ekki stefnan í dag, og það kom kannski ekki nægilega skýrt fram nema hv. þingmaður reyndi að draga það inn í umræðuna að miklar framkvæmdir væru hjá einkaaðilum og hinu opinbera. Nú erum við að ræða fjárlögin og hið opinbera á kannski ekki gott með að grípa inn í einkaframkvæmdir, einkum þær sem hér voru raktar í gær. En til þess að þrengja spurninguna og gera hlutina aðeins einfaldari vil ég spyrja hv. þingmann: Hvaða framkvæmdir ríkisvaldsins ætti að hætta við? Hvaða framkvæmdir eru það sem ekki ætti að ráðast í? Mér þætti vænt um að heyra af þeim framkvæmdum.

Hv. þingmaður, sem situr í fjárlaganefnd, veit mætavel að ekki er gert ráð fyrir stóriðjuframkvæmdum í fjárlagafrumvarpinu. Það veit hv. þingmaður vel. Það er því ekki nægilega góð röksemdafærsla að flýja þangað. Ég einfalda þetta því og spyr: Hvaða opinberu framkvæmdir er hv. þingmaður að leggja til að hætt verði við til þess að slá á þensluna? Það er fyrri spurningin.

Seinni spurninguna vil ég ítreka frá því áðan. Hv. þingmaður talar um að breytt efnahagsstjórn sé algjörlega nauðsynleg og væntanlega byggist það á því að hér sé allt í kaldakoli, að hér sé allt í steik og fara þurfi aðrar leiðir en menn hafa gert á undanförnum árum. Mér þætti vænt um að heyra hvaða innlegg eða hvaða leið hv. þingmaður er að kalla eftir. Það hljómar frasakennt ef menn slá um sig með orðum sem ekkert innihald er í. Sem talsmaður stjórnarandstöðunnar í fjárlagaumræðunni finnst mér ekkert ósanngjarnt að kalla eftir því hvaða breyttu efnahagsstjórn verið er að kalla eftir svo að við getum (Forseti hringir.) rætt það á faglegum nótum.