135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[18:41]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég hyggst taka hv. þm. Ögmund Jónasson á orðinu með það að hann hyggist óska eftir umræðu í þinginu um orkumál og ætla því að spara mér að tjá skoðanir mínar um þau mál sem hér hafa verið til umræðu í undanförnum ræðum.

En hjá þingmanninum kom fram sú athugasemd að von væri að útgjöld til heilbrigðismála og menntamála á Íslandi hefðu aukist, það væri í takt við það sem gerðist í löndum í kringum okkur. Þá er til að taka að það er rétt að útgjöld til þessa málaflokks hafa víðast hvar aukist. Það er þó ekki algilt. Í fyrsta lagi eru menn betur meðvitaðir um mikilvægi menntunar en áður og vita að til þess að komast af í samkeppni þjóðanna í framtíðinni mun alltaf reyna meira á hvernig menn hafa fjárfest í þeim málaflokki.

Við Íslendingar búum að því núna að okkur hefur tekist jafnmyndarlega að auka framlög til menntamála á sama tíma og við höfum aukið útgjöld til heilbrigðismála og félagsmála og annarra góðra málaflokka. Ég vil sérstaklega nefna vegamálin. Þar hefur verið unnið stórkostlegt afrek á síðustu árum, síðasta einn og hálfan áratug. Á sama tíma hefur okkur tekist nokkurn veginn að greiða upp skuldir ríkissjóðs við útlönd. Það er stórkostlegt afrek en samtímis hefur tekist að lækka skattana bæði á fyrirtæki og einstaklinga.

Berum þetta saman við lönd sem hafa vissulega aukið útgjöld sín til menntamála, t.d. Frakkland eða Þýskaland, lönd sem búa við viðvarandi halla á fjárlögum, halla sem velt er yfir á næstu kynslóðir, sem eru í nákvæmlega þeirri stöðu sem við Íslendingar vorum í fyrir ekki svo löngu. Í staðinn fyrir að við veltum halla og byrðum yfir á næstu kynslóðir þá léttum við undir með komandi kynslóðum.

Við búum yfir lífeyrissjóðakerfi, okkur hefur lánast að búa til kerfi á Íslandi sem er þannig að eignir lífeyrissjóðanna eru nú metnar á u.þ.b. 1.500 milljarða kr., sem er gríðarleg eign, einhvers staðar í kringum 120% af þjóðarframleiðslunni. Í OECD-löndunum er þetta hlutfall í kringum 25%, sem er ekkert annað en ávísun á skattahækkanir í framtíðinni til að geta staðið undir þeirri velferð, því lífi sem menn vilja veita eldri borgurum landsins.

Munurinn er sem sagt þessi: Það velferðarkerfi sem við höfum búið til og sú aukning sem við stöndum fyrir, bæði í menntamálum, heilbrigðismálum og félagsmálum, er velferð sem við höfum efni á, sem við getum borgað núna. Þetta eru ekki byrðar fyrir næstu kynslóðir. Það er grundvallarmunurinn á okkur og mörgum þeim sem við berum okkur saman við. Takið eftir öðru: Nú er það þannig að framlög Íslendinga til menntamála eru næsthæst í heimi sem hlutfall af þjóðarframleiðslu. Vissulega þurfum við að gera betur en það er samt sem áður staðreynd að þetta er hlutfallið. Og þjóðarframleiðsla á mann er há á Íslandi, hærri en hjá mörgum þjóðum sem við berum okkur saman við.

Hvað þýðir þetta og hvað segir þetta? Það segir að áhersla ríkisstjórnarinnar er á að fjárfesta í menntun, það eru skilaboðin. Í fjárlagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir er það ein af hinum stefnumótandi ákvörðunum að auka enn frekar við framlög til menntamála, sérstaklega til háskólanna og í rannsóknarsjóði. Ég tel að þetta sé algjört grundvallaratriði og ég er þeirrar skoðunar að við séum rétt að byrja. Við þurfum að gera meira og auka fjárframlög til menntamála og munum gera það á næstu árum af því að við munum hafa efni á því. Við munum geta gert það þannig að við séum ekki að skuldsetja komandi kynslóðir fyrir þeirri þjónustu sem við veitum í dag. Við erum að fjárfesta í komandi kynslóðum með því að auka framlög til mennta.

Það er líka áhugavert fyrir þá sem hafa svo lengi talað fyrir því að hækka skatta á fjármagnstekjur að skoða þá staðreynd að fjármagnstekjuskatturinn, á fyrstu sjö mánuðum þessa árs, er nokkurn veginn sama tala og kostar okkur að reka menntakerfið. Með öðrum orðum, fjármagnstekjuskatturinn skilar okkur jafngildi menntakerfisins. Skattur sem engu skilaði fyrir nokkrum árum síðan. (Gripið fram í: Framsóknarflokkurinn setti hann á.) Það var svo margt gott með Framsóknarflokkinn og það yrði langur listi að telja það upp en það var líka margt hræðilegt með þann flokk, en hann var að meðaltali góður. Eitt af því góða sem gerðist í síðustu ríkisstjórn var m.a. að menn stóðu af sér kröfur um að hækka þennan skatt. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn vissu að með því að hækka þann skatt mundum við ekki auka skatttekjurnar og það var lykilatriði.

Þegar við horfum á fjárlagafrumvarpið sem heild má helst finna það að því, eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni, að við búum við þann vanda að eiga erfitt með að áætla tekjurnar. Það er vissulega áhyggjuefni. Það má líka taka undir þá skoðun að útgjaldaaukningin sé mikil. Ég sæki mér huggun í það, hvað það varðar, að töluvert stór hluti af þeim sé tilfallandi, komi sérstaklega til vegna ákveðinna aðstæðna í samfélaginu, þá sérstaklega vegna þorskniðurskurðar og tilrauna til að mæta þeim vanda sem blasir við á landsbyggðinni. Menn hafa reynt að bregðast við því, að ég tel skynsamlega, með því að auka framlög til vegagerðar, styrkja innviði samfélagsins og auka möguleika íbúa þessara svæða á því að bjarga sér sjálfir.

Því er ekki að neita að auðvitað hljóta menn að hafa áhyggjur af því hvaða áhrif þessi fjárlög muni hafa á efnahagslífið í landinu. Það er sjálfsagt mál og við verðum að fylgjast með því. En það eru ástæður fyrir aukningunni í fjárlagafrumvarpinu, ástæður fyrir þessum útgjaldaauka. Hann er ekki kominn til að vera, er ekki viðvarandi þar sem stór hluti hans er sérstök verkefni. Það ber að horfa til þess.

Ég vil að lokum árétta þá skoðun mína að hin sterka staða ríkissjóðs sem við horfum fram á er sérstök ástæða til þess að við horfum til þess að skattar verði lækkaðir í framhaldinu. Það er einhvern veginn þannig, stundum er svolítið við menn með mína menntun að sakast í því efni, hagfræðingana, að fræðimenn eru alltaf þeirrar skoðunar að það sé ekki möguleiki á að lækka skatta. Ýmist er það þannig vegna þess að ríkissjóður stendur of veikt og því ekki hægt að lækka skattana eða einfaldlega vegna þess að ríkissjóður er of sterkur og ekki heldur hægt að lækka skattana. Það er eins og útgerðarmaðurinn sem aldrei gat farið á sjóinn af því að ýmist var veðrið að verða vont, orðið vont eða gæti orðið vont eða hvernig það nú var, það var bara aldrei nógu gott.

Þess vegna ættum við núna að einsetja okkur, eins og komið hefur fram í stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra, eins og komið fram hjá hæstv. fjármálaráðherra og eins og fram kom í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, á þessu kjörtímabili að lækka skatta. Við eigum að horfa á vörugjöldin, horfa á tekjuskattinn, á fyrirtækjaskattinn og þá skatta sem við getum mögulega lækkað. Það mun skila sér margfalt til ríkissjóðs þegar upp verður staðið.