135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[19:02]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef haldið þessa ræðu úr ræðustóli í átta ár. Við þurfum því kannski ekki að metast um það, ég og hv. þingmaður, hvor hefur sagt þessa hluti oftar. Ég fagna því ef hv. formaður fjárlaganefndar ætlar að fara að taka þessi vinnubrögð til gagngerrar skoðunar á þeim nótum sem ég hef verið að tala um og ég lýsi mig reiðubúna til að þess að koma að því starfi því ég tel mig vita nokkuð um hreyfingu fjármuna innan þessa geira. Ég er því sannarlega viljug til þess að taka þátt í að benda hv. þingmanni á þær leiðir sem ég hef komið auga á í starfi mínu sem þingmaður og í starfi mínu úti á akrinum sem listamaður.

Hins vegar finnst mér ákveðin vonbrigði fólgin í því að hv. þingmaður skuli lýsa því yfir að sömu vinnubrögð verði viðhöfð í ár og hafa verið hingað til. Ég veit auðvitað að það er rétt og það verður ekki hjá því komist vegna þess að fjárlagafrumvarpið er eins og það er. Ég hefði viljað sjá að skrefið hefði verið stigið með frumvarpinu, að safnliðirnir hefðu ekki verið skornir niður heldur hefðu þeir verið færðir yfir á þá sjóði sem í raun var verið að veita verkefni til, í gegnum safnliði á síðasta ári. En gott og vel, svona standa þessi mál. Hv. formaður fjárlaganefndar hefur lýst yfir vilja til að taka þau til endurskoðunar. Ég sem er áhugamanneskja um þetta er til í að starfa með honum í því og þá held ég að við getum tekið saman á því verkefni sem ég tel vera mjög mikilvægt, að listamenn og fólk sem starfar að listum og menningu í landinu geti aðeins séð fótum sínum forráð í þessum efnum, þ.e. hversu mikið er til skiptanna í viðkomandi geira frá ári til árs.