137. löggjafarþing — 4. fundur,  20. maí 2009.

samskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn -- Tónlistarhús.

[13:41]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Ég á ekki gott með að átta mig á því hvað hv. þingmanni gengur til með að reyna að gefa í skyn að hér búi eitthvað óeðlilegt undir eða að maðkur sé í mysunni. Ég held að það sé einmitt þvert á móti mjög mikilvægt á þessum tímum að ekki sé að ósekju verið að reyna að grafa undan trúverðugleika á íslenskum efnahagsmálum og stöðu þeirra. (EyH: Hvað kallar þú ...?) Það hefur legið fyrir frá 13. mars síðastliðnum að ólokið væri ákveðnum verkefnum úr heimsókn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þá sem nú er verið að ljúka og þarf engum að koma á óvart nema hv. þingmanni. Sömuleiðis liggja fyrir yfirlýsingar af opinberum blaðamannafundum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um að í öllum aðalatriðum gangi samstarfsáætlun Íslands og sjóðsins eftir og að hér miði í rétta átt, hér séu vextir að lækka, hér sé útlit fyrir að dragi úr verðbólgu og að ýmis annar árangur náist. Það eru mikilvæg jákvæð skilaboð um þróun efnahagsmála á Íslandi á ögurstundu í lífi þjóðarinnar. Þess vegna er mikilvægt að halda því til haga sem jákvætt er og uppbyggilegt hefur verið á síðustu mánuðum í efnahagsþróun hér en ekki algerlega að tilefnislausu, að því er virðist, að reyna að vefengja að opinberar yfirlýsingar alþjóðlegra stofnana séu á rökum reistar og eftir efni máls ósannar, enda veit hv. þingmaður og þeir þingmenn sem hafa kynnt sér þróun efnahagsmála hér á síðustu vikum og mánuðum að þetta er auðvitað með þessum hætti. En það er jafnframt rétt að á málalista ríkisstjórnarinnar eru ákveðin verkefni sem eiga eftir að koma fyrir þetta sumarþing meðal annars í tengslum við ríkisfjármálin og þingið á eftir að vinna úr því. En ég kvíði því ekki að við munum ljúka því verki hér vel og skilmerkilega (Forseti hringir.) eins og í ýmsum öðrum.