137. löggjafarþing — 4. fundur,  20. maí 2009.

samskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn -- Tónlistarhús -- nýtt sjúkrahús.

[13:46]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hamingjuóskir sem snerta embætti mitt sem formaður fjárlaganefndar. Ég óska eftir góðu samstarfi við hv. þingmann og aðra varðandi þá vinnu sem þar er fram undan. Hv. þingmaður spyr hvar sé hægt að sjá í fjárlögum eða fjáraukalögum upphæðir varðandi skuldbindingar um tónlistarhús. Um þetta var fjallað ítarlega, yfirlýsing sem hv. þingmaður er að vitna í er frá 19. febrúar 2009, það var viljayfirlýsing menntamálaráðuneytis og Reykjavíkurborgar að halda áfram byggingu hússins. Það var síðan fjallað um þetta í fjárlaganefnd í marsmánuði og erindi voru send til menntamálaráðuneytisins og til Ríkisendurskoðunar varðandi það hvernig fara ætti með þetta mál. Þar kom fram að þetta mál hefur verið bókað í fjárlögum, það var bókað strax 2006 undir 6. gr. heimildum, allir þeir samningar sem þar eru. Þarna er um að ræða hlutafélag sem er undir E-hluta ríkisfjárlaga og þarf þar af leiðandi ekki að bókast sérstaklega í fjárlögunum að mati bæði menntamálaráðuneytis og Ríkisendurskoðunar.

Það skal þó segjast hér að það er ekki eðlilegt að ekki sé þá gerð grein sérstaklega fyrir þeim fjárskuldbindingum sem um er að ræða. Ég mun beita mér fyrir því að þær verði lagðar fram hér í þinginu, annaðhvort í gegnum fjáraukalög, eins og lagt er til í bréfi Ríkisendurskoðunar, eða í fjárlögum árið 2010. Endanlegir samningar hafa ekki verið lagðir fram og hafa ekki komið fram, hvorki til þingsins né opinberlega, að ég best veit, og nefndin hefur ekki fjallað um þetta enn þá. En það liggja fyrir bréf frá marsmánuði, bæði frá menntamálaráðuneyti og Ríkisendurskoðun, um allar upphæðir í málinu. Hv. þingmaður nefndi 24 milljarða sem er heildarkostnaðurinn, það þýðir að skuldbinding sem eftir er að fullnusta miðað við októberverðlag er um 14 milljaðar, þar af er ríkishlutinn 54%, ef ég man rétt. Það má segja að þarna sé ríkið að skuldbinda sig til að greiða (Forseti hringir.) um 436 millj. kr. á ári næstu 35 árin og auðvitað á að fjalla um það hér í þinginu. Það var einmitt gerð lagabreyting rétt fyrir þinglok (Forseti hringir.) um það að fjárlaganefnd fái heimild til að fjalla um E-hluta fyrirtækin.