137. löggjafarþing — 4. fundur,  20. maí 2009.

áform ríkisstjórnarinnar um fyrningu aflaheimilda.

[14:35]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur um tveggja ára skeið unnið að ítarlegri endurskoðun á sjávarútvegsstefnu flokksins og afraksturinn leit dagsins ljós um mánaðamótin mars/apríl sl. Þetta er afrakstur starfshóps sem hefur unnið og haldið fjölda funda, kallað til sín sérfræðinga og aflað ótrúlega viðamikilla gagna.

Við höfum lengi kallað eftir heildarendurskoðun á sjávarútvegsstefnunni. Í þessari stefnumörkun VG sem ég er ákaflega stoltur af er fjallað heildstætt um sjávarútvegsmál. Það er fjallað um Ísland og svæðasamvinnu, sjálfbæra nýtingu og vistvænar veiðar, eflingu hafrannsókna, samvinnu við sjómenn, vistkerfisstjórnun og lagaumhverfi, hagrænar rannsóknir og fiskvernd, aðgerðir gegn brottkasti, orkusparnað í sjávarútvegi og siðræn viðhorf. Það er líka fjallað um menntun sjómanna og fiskverkafólks, sem því miður er í dag í skötulíki í íslensku þjóðfélagi. Þar erum við að fjalla líka um stjórn fiskveiða, réttláta skiptingu, jafnræði og þjóðareign, innköllun og endurráðstöfun aflaheimilda, neyðarrétt gagnvart framsali ef sjávarbyggðir fara í þrot vegna eins pennastriks.

Við höfum aðrar leiðir líka til skoðunar í þessum efnum. Við erum að tala um atvinnuréttindi sjómanna og byggða og úthlutun aflaheimilda á hendi ríkisins. Það er vitað að nokkur fyrirtæki kunna að fara í þrot á næstu dögum, mánuðum eða missirum og verður að tryggja að þær aflaheimildir sem þá ganga til baka til ríkisins eða til viðkomandi þrotabúa fari ekki út úr byggðarlögunum. Það er alvarlegt mál sem menn verða að huga að.

Við tölum líka um sóknarfæri í íslenskum sjávarútvegi og þau eru ótrúlega mörg. Ég hygg að enginn annar stjórnmálaflokkur hafi lagt fram jafnfaglega og -metnaðarfulla sjávarútvegsstefnu og Vinstri hreyfingin – grænt framboð og ég hvet að gefnu tilefni þingmenn og útvegsmenn til að kynna sér þessa stefnu til hlítar.

Ég vil, frú forseti, minna á að hér er eingöngu til umræðu einn þáttur í markmiðum heildarendurskoðunar sem byggir að miklu leyti á þessari stefnumörkun Vinstri grænna. Það er svonefnd innköllun samkvæmt 6. lið markmiðanna. Þessi innköllun má aldrei og getur aldrei farið í bága við önnur markmið heildarendurskoðunarinnar, þ.e. stuðla að vernd fiskstofna. Hún má ekki fara í andstöðu við að stuðla að hagkvæmri nýtingu. Hún verður að treysta byggð í landinu en ekki öfugt og hún verður að efla byggð í landinu. Rauði kjarninn í stefnumótun okkar vinstri grænna er sátt, að leitað sé sátta, að við komum upp úr skotgröfunum sem við höfum verið í um áratugaskeið í þessu máli.

Ég ætla að segja að lokum, frú forseti, að vandamál sjávarútvegsins í dag liggja ekki í hugsanlegri áætlun um innköllun eftir samráð sem verður farið í að undangenginni hagrænni og þjóðfélagslegri skoðun á málinu, heldur líka vandamál sjávarútvegsins í ofurskuldsetningu aflaheimilda. Það vita allir sem vilja vita að það er mesta vandamálið. Í öðru lagi ótakmarkað framsal, það verður að setja einhverjar takmarkanir þar svo aflaheimildir í stórum og öflugum sjávarbyggðum fari ekki í burtu með einni undirskrift. Við getum ekki þolað það lengur.

Í þriðja lagi stafar sjávarútveginum að mínu mati ógn af hugsanlegri aðild að ESB, það er sannfæring mín. Þetta verðum við allt að skoða. Þetta verður sjávarútvegurinn að skoða og setjast við borð með öðrum, með stjórnmálamönnum, og finna leiðir til sátta því að það er enginn vafi um það að sjávarútvegurinn er okkar öflugasta atvinnugrein og á hana munum við reiða okkur mjög sterklega við endurreisn þjóðfélags okkar.