137. löggjafarþing — 4. fundur,  20. maí 2009.

áform ríkisstjórnarinnar um fyrningu aflaheimilda.

[14:39]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegur forseti. Það er sífellt áhugaverðara að hlusta á ríkisstjórnarflokkana skýra stefnu ríkisstjórnarinnar og áætlanir um það hvernig þau stefna í ýmsum málum og tala bæði út og suður.

Ég ætla aðeins að fara yfir stefnu Framsóknarflokksins í mjög stuttu máli. Í fyrsta lagi, og við höfum lagt á það ríka áherslu, er mjög mikilvægt að koma ákvæði um eignarrétt þjóðarinnar á auðlindinni í stjórnarskrá. Síðan höfum við einnig lagt mikla áherslu á að tryggja rekstrargrundvöll fyrirtækjanna, tryggja rekstrargrundvöll greinarinnar nú á erfiðum tímum og einnig til framtíðar. Það þýðir í raun og veru að láta atvinnugreinina í friði.

Í þriðja lagi vil ég þó nefna það að öll mannanna verk eru umdeilanleg. Frá því að þau lög sem við erum að fjalla um, um stjórn fiskveiða, voru sett árið 1990 hefur þeim verið breytt meira en 40 sinnum, á þessum tæplega 20 árum. Því þarf að gefa sér tíma og setjast að nýju yfir lögin, atvinnuumhverfið og finna í raunverulegu samráði við alla þá aðila lausn sem meiri þjóðarsátt gæti hugsanlega ríkt um. Þessari vinnu þarf að gefa meiri tíma.

Eigum við kannski að rifja upp lögin, hvað í þeim stendur og til hvers þau voru sett? Í 1. gr. laganna þar sem gjarnan kemur fram markmið laga segir, með leyfi forseta:

„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“

Tvær málsgreinar, sú fyrsta og sú þriðja, styðja það ákvæði um eignarrétt þjóðarinnar sem á að fara í stjórnarskrána og styður þar með stefnu okkar framsóknarmanna. Annar málsliður fjallar um það markmið að vernda, stuðla að hagkvæmni, hagkvæmri nýtingu og treysta atvinnu og byggð í landinu. Veltum fyrir okkur og reynum að rifja upp við hvaða aðstæður þessi lög voru sett og af hverju. Jú, frú forseti, þá var búin að vera ofveiði með mikilli offjárfestingu um land allt, stefna sem setti auðlindina í uppnám, stefndi atvinnu fólks í voða og byggðum sömuleiðis. Kvótakerfið hefur einmitt náð tilgangi sínum, náð utan um vernd fiskistofna þrátt fyrir að við vildum gjarnan hafa náð betri árangri. Það hefur jafnvel gengið svo langt að alþjóðlegir aðilar hafa talið það til fyrirmyndar og nú berast þær raddir að ströndum landsins að jafnvel Evrópusambandið hafi hug á því að taka þetta kerfi upp, a.m.k. skoða það.

Hinn hlutinn, um að gera atvinnugreinina hagkvæma, skila arðsemi svo hægt sé að byggja upp fleiri störf, er smátt og smátt að koma fram. Ef ekki hefði verið fyrir ranga peningastefnu og ranga stefnu í efnahagsmálum þjóðarinnar hefði sá árangur komið mun fyrr í ljós. Í 20 ár hefur atvinnugreinin verið að hagræða, fækka skipum, efla þekkingu og auka tækjakost. Núna þarf atvinnugreinin og bæði vill og getur dafnað við hagfelldara gengisstig. Aðstæðurnar í þjóðfélaginu gera greininni kleift að verða aftur sú atvinnugrein sem við sem þjóð þurfum einna mest á að halda.

Nú bregður svo við að hæstv. ríkisstjórn er með áætlanir, nema hvað, um að rugga þessum bát, koma með óábyrgar tillögur um fyrningarleið sem enginn veit hvernig á að leysa. Afleiðingin er þekkt og hefur komið vel fram í ræðum í dag. Það er óöryggi allra þeirra sem starfa í greininni, ekki einungis þeirra útgerða sem fara með nýtingarréttinn, heldur alls fólks (Forseti hringir.) sem býr og starfar í sjávarbyggðum um land allt. Hvaða réttlæti er fólgið í því?