138. löggjafarþing — 4. fundur,  7. okt. 2009.

nýting orkulinda til orkufreks iðnaðar og stöðugleikasáttmálinn.

[14:21]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við þær erfiðu aðstæður sem þjóðin býr í dag er okkur aldrei mikilvægara að nýta orkuauðlindir landsins með skynsamlegum hætti fyrir komandi kynslóðir. Sú nýting verður að byggja á endurnýjanlegum orkugjöfum og leggja verður áherslu á græna atvinnustarfsemi. Við verðum að vanda vel til þeirra verkefna sem ráðist verður í í framtíðinni. Tryggja verður eign íslensku þjóðarinnar á orkuauðlindum landsins og hafa þar með áhrif á hvers konar atvinnusköpun við ráðumst í í framtíðinni, hvort sem um er að ræða gufuaflsvirkjanir á Norðurlandi eystra, Hellisheiði eða á Reykjanesi eða vatnsaflsvirkjanir á Suðurlandi.

Staðreyndin er sú að við getum ekki virkjað endalaust. Í vetur mun liggja fyrir rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma þar sem orkukostir verða greindir og hvaða svæði ber að vernda til framtíðar. Tími áframhaldandi stóruiðjuuppbyggingar er liðinn. Þær framkvæmdir sem þegar eru hafnar, eins og í Helguvík, ráðast af möguleikum á orkuöflun og fjármögnun. Hvort tveggja er í óvissu í dag. Viljayfirlýsing um álver á Bakka var ekki endurnýjuð og verið er að skoða umhverfisvænni atvinnusköpun á því svæði þar sem orkan mun nýtast atvinnuuppbyggingu á Norðurlandi eystra. Verið er að kanna möguleika á gagnaveri á Blönduósi og unnið er að uppbyggingu gagnavers í Reykjanesbæ.

Stöðugleikasáttmálanum sem ríkisstjórnin gerði við aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélög er ætlað að stuðla að endurreisn efnahagslífsins og tekur til fjölda efnahagsþátta og þar ræður uppbygging áframhaldandi stóriðju ekki ferðinni. Mikilvægt er að horfa til atvinnusköpunar fyrir konur því að fjöldi kvenna hefur misst vinnuna við bankahrunið og samdráttur hjá hinu opinbera bitnar hart á kvennastörfum.