139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[18:35]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hagræðingarkrafan í íslensku samfélagi að því er ríkissjóð varðar nemur 44 milljörðum og þar er verið að reyna að ná inn 11 milljörðum í hærri álögum og skera niður sem nemur 33 milljörðum. Ég tel skynsamlegt að fara þá leið að ná inn minni tekjum hvað skattana varðar en meiri tekjum hvað niðurskurð varðar. Ég minni hins vegar á og talaði um það í ræðu minni að þriðja leiðin, aukið líf í atvinnuverkefnum, væri mikilsverð en auðvitað er það svo að kannski er ekki fyllilega raunhæft að tala um feikilega viðspyrnu eða viðsnúning í því efni á komandi mánuðum. Það mun taka ákveðinn tíma að koma atvinnulífinu á fullan hraða á nýjan leik og þá skulum við horfa raunsætt á verkefnin. Við getum ekki stillt dæminu upp þannig að við skerum aðeins niður í ríkisstofnunum. Við þurfum með einhverju móti að koma auknum álögum á og þar vil ég halda því til haga að sú hækkun (Forseti hringir.) skatta á fyrirtæki sem nú er að baki hefur aðeins skilað okkur í þá veru að við erum enn þá með lægstu skatta á fyrirtæki borið saman við nágrannaríki okkar.