139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[18:37]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil minna hv. þm. Pétur H. Blöndal á að skattar hafa í vissum tilvikum lækkað. Ég minni á og það er staðfest að fjölskyldur með árstekjur 5,6 millj. og undir hafa lækkað í sköttum um 2,5% ef ég man rétt og er það staðfest. Engu að síður vil ég taka fram að við erum komin að ákveðnum endimörkum hvað auknar álögur á fyrirtæki og fólk varðar og ég held að við komumst ekki endilega lengra í þeim efnum.

Aðalatriðið er að við þurfum að ná viðspyrnu í atvinnulífið, ná inn tekjum með þeim hætti og fleiri tillögum. Ég hef t.d. talað fyrir því að skoða beri leið sjálfstæðismanna hvað það varðar að skattleggja séreignarsparnað á innleiðinni þannig að það skapi okkur ... (Gripið fram í.) Ja, sumir segja 40 milljarða tekjur og aðrir nefna 70 milljarða tekjur, ég veit ekki hversu nákvæmar þær tölur eru. En auðvitað eigum við að skoða allar leiðir til að milda viðkvæmustu flokkana í fjárlagafrumvarpinu og fjárlögum næsta árs.