143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:25]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Bara til að taka af allan vafa þá greiðir sjávarútvegurinn, þ.e. útgerðin, um 20 milljarða kr. til samfélagsins í formi veiðigjalds og tekjuskatta. Það er ekki þannig að sjávarútvegurinn greiði enga skatta eins og gjarnan er gefið í skyn úr þessum ræðustól.

Hv. þingmaður sagði réttilega að ef einhverjir aðilar í útgerð eigi erfitt með að standa undir veiðigjaldi þá beri að leiðrétta það. Það var hins vegar ekki gert ráð fyrir því í því frumvarpi sem átti að taka hér gildi. Ekki var gert ráð fyrir því að staða þeirra aðila yrði leiðrétt. Það bíður okkar hins vegar að semja nýjar reglur um veiðigjaldið þar sem vonandi verður tekið tillit til misjafnrar stöðu fyrirtækjanna eftir útgerðarflokkum og slíkt.

Fjárfestingar í sjávarútvegi eru og þurfa að vera mjög miklar því að fiskiskipaflotinn eldist, tækin úreldast og fleira. Á síðasta ári, ég held að ég hafi sagt frá því hér í þessum ræðustól, kom ég inn í lítið útgerðarfyrirtæki. Þeir höfðu ætlað að kaupa sér tæki upp á 25 millj. kr. til þess að vinna betur saltfiskinn, ná meiru út úr fyrirtækinu, auka verðmæti afurðanna. Veiðigjaldið sem þetta fyrirtæki átti að borga var 25 millj. kr. Þeir keypti ekki þetta nýja tæki, þeir gátu það ekki vegna þess að peningurinn sem átti að fara í fjárfestinguna fór í veiðigjaldið.